Matarmót Matarauðs Austurlands fór fram sl. föstudag í Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum. Þetta er í annað skipti sem slíkt mót er haldið og eru skipuleggjendur hæstánægðir með það hvernig til tókst. Alls tóku tæplega 150 manns þátt, m.a. matvælaframleiðendur, gestir, framsögumenn á málstofum og skipuleggjendur.
Ljóst er að mikil gróska er í matvælaframleiðslu á Austurlandi og var eftirtektarvert að sjá hversu fjölbreytt hún er.
Smakkið vakti mikla lukku og var ánægjulegt að fylgjast með samtali framleiðenda og tilraunum þeirra í að para saman þær vörur sem í boði eru. Vonir standa til að gott og fjölbreytt samstarf verði til í framhaldinu.
Fjölbreyttar málstofur voru í boði á mótinu. Snæfríður Arnardóttir, frá matvælaráðuneytinu, fjallaði um sjálfbæra matvælaframleiðslu út frá nýrri matvælastefnu Íslands auk þess sem hún fór yfir hlutverk Matvælasjóðs. Sveinn Margeirsson, frá Brim, fjallaði um gæði lands og sjávar, hvort nýsköpun getur stutt við hringrásarhagkerfið á Austurlandi og minnkað sóun. Ingibjörg Halldórsdóttir, frá Vatnajökulsþjóðgarði, fjallaði um sjálfbæra nýtingu í þjóðgarðinum og hvernig matur úr náttúru Austurlands getur tengst við markmið og hlutverk þjóðgarðsins. Hafliði Halldórsson, hjá Bændasamtökunum, fjallaði um upprunamerkingar íslenskra afurða og hvernig við getum aukið virði þeirra. Ólafur Arnar Ólafsson, veitingamaður á Brút, fjallaði um nýtingu á hráefni úr nærumhverfi. Síðust en ekki síst var Þórhildur María Jónsdóttir, frá Biopol á Skagaströnd, en hún fjallaði um matarfrumkvöðla og smáframleiðslu matvæla.
Í lok dags var haldinn félagsfundur í matarklasanum Austfirskar krásir þar sem farið var yfir tilurð samtakanna og tillögur að nýju fólki í stjórn voru lagðar fram. Gert er ráð fyrir að aðalfundur verði haldinn í lok nóvember þar sem ný stjórn verður formlega kosin auk annarra hefðbundinna aðalfundarstarfa. Góð umræða náðist á fundinum og var ánægjulegt að sjá áhuga fundarmanna á endurvakningu Krásanna.
Eftir fjölbreyttan og árangursríkan dag snæddu um fjörutíu þátttakendur ljúffenga smárétti á Feita fílnum, héldu áfram að styrkja bönd, mynda tengsl, tala um mat og matarmenningu og alla þá möguleika sem í greininni eru.
Það er mjög mikilvægt að samtal náist áfram um matvælaframleiðslu á Austurlandi og að við sem hér búum og störfum séum leiðandi í því að hlúa að sjálfbærri framleiðslu og nýtingu, hugum að hringrásarhagkerfi, vinnum saman og að einstaklingar, fyrirtæki – stór og smá, stofnanir og sveitarfélög taki saman höndum og hlúi áfram að Matarauði Austurlands.
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn