Á Austurlandi búa ríflega ellefu þúsund manns í fjórum sveitarfélögum. Hér eru rekin öflug og alþjóðlega samkeppnishæf framleiðslufyrirtæki sem veita stórum hluta Austfirðinga atvinnu. Greinargerð þessi varpar ljósi á efnahagsumsvif landshlutans, m.a. með því að kanna hlutdeild Austurlands í framleiðslu og útflutningi á Íslandi.
Greinargerðin er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Analytica með aðstoð Austurbrúar fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA). Hún byggir m.a. á upplýsingum sem Austurbrú hefur aflað frá stærri fyrirtækjum í landshlutanum en nær ekki til umsvifa minni aðila. Því er hér væntanlega um vanmat að ræða á hlutdeild Austurlands.
Það er augljóst að Austurland leggur mikið til þjóðarbúsins með tæpan einn fjórða af heildarverðmæti vöruútflutnings þrátt fyrir að þar búi innan við þrjú prósent Íslendinga.
Það er mat okkar hjá SSA að möguleikar atvinnulífsins til að skapa enn meiri verðmæti séu miklir en þá þarf hið opinbera að ráðast í öfluga innviðauppbyggingu. Við teljum það sanngirnismál að landshluti, sem leggur jafn mikið til þjóðarbúsins og raun ber vitni, njóti þess með ríkulegri hætti.
Það borgar sig að fjárfesta í Austurlandi.
Sjávarútvegur
Til sjávarútvegs á Austurlandi teljast m.a. fyrirtækin Ice Fish Farm (sem t.d. rekur Fiskeldi Austfjarða og Laxa fiskeldi), Loðnuvinnslan, Síldarvinnslan (þau fyrirtæki í samstæðunni sem starfrækt eru í landshlutanum), Brim (starfsemi á Vopnafirði) og Eskja. Samkvæmt rekstraryfirliti sjávarútvegs 2017-2021 eru heildartekjur sjávarútvegs á Íslandi nær eingöngu vegna sölu vara á erlendan markað (s.s. útflutningstekjur) og á það sama við um Austurland.
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var virði útfluttra sjávarafurða að viðbættu fiskeldi (FOB virði) 398 milljarðar króna árið 2022 á landsvísu og Analytica metur það svo að þar af sé hlutur Austurlands 86,4 milljarðar.
Miðað við ofangreindar forsendur má sjá að 21,7% af verðmæti útflutnings sjávarútvegs í heild sinni kemur frá Austurlandi.
Ál
Virði útflutts áls Alcoa Fjarðaál var 143 milljarðar króna árið 2022 samkvæmt Alcoa.
Til samanburðar var virði útflutts áls frá Íslandi í heildina 403 milljarðar króna árið 2022.
Á Reyðarfirði er 35,5% alls áls á Íslandi framleitt.
Vöruútflutningar
Samkvæmt Hagstofu Íslands var virði heildarútfluttra vara frá Íslandi árið 2022, 1.002 milljarðar króna og útfluttar vörur frá sjávarútvegi og álframleiðslu á Austurlandi voru 229 milljarðar króna sama ár.
Vel ríflega fimmtungur (21,7%) af verðmæti útfluttra sjávarafurða kemur frá Austurlandi og vel ríflega þriðjungur af álframleiðslu (35,5%), sem skilar sér í tæplega fjórðungi af heildarútflutningi Íslands. Þannig stendur einn landshluti fyrir tæplega fjórðungi útflutnings landsins.
Á myndinni að ofan má sjá að Austfirðingar, sem eru 2,9% af heildarmannfjölda Íslands, skapa nær fjórðung útflutningstekna (af vöruútflutningi). Þannig má segja að hver Austfirðingur framleiði tífalt á við aðra í landinu.
Ef við er bætt umsvifum af ferðaþjónustu (sjá neðar) er hlutdeild Austurlands af heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins 14,4% í stað 13,2%.
Ferðaþjónusta
Neysla ferðamanna
Þegar litið er til umsvifa ferðaþjónustu er gagnlegt að skoða neyslu ferðamanna.
Töflur 4-6 sýna neyslu ferðamanna á Íslandi og hlutfall gistinátta ólíkra tegunda ferðamanna fyrir Austurland og á Íslandi. Tafla 7 dregur saman mat Analytica á umsvifum ferðaþjónustunnar á Austurlandi.
Þegar skyggnst er í þessar tölur sést að Austurland sem ferðamannastaður er vinsælli hjá Íslendingum en erlendum aðilum. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður, s.s. erfiðleikar við að komast austur (samgöngur) og að Íslendingar þekki betur hvað Austurland hefur upp á að bjóða. Þrátt fyrir að hlutdeild í gistináttum sé lág eru þónokkrar tekjur af ferðamönnum og meiri tekjur eru af íslenskum ferðamönnum en erlendum á Austurlandi.
Ef rýnt er í tölur Hagstofunnar um nýtingu á hótelherbergjum og -rúmum má sjá að hún hefur aukist á Austurlandi þegar árið 2022 er borið saman við 2019 og fyrri ár, en yfir landið allt hefur nýting þvert á móti dregist saman um 2,3%. Samanburði við árin 2020 og 2021 er sleppt til að forðast áhrif Covid-19 faraldursins og þess í stað stuðst við árið 2019 til samanburðar við árið 2022. Mynd 1 hér að neðan sýnir að nýting á Austurlandi hefur aukist frá árinu 2017.
Óhætt virðist að fullyrða að tækifæri séu í ferðaþjónustu á Austurlandi. Líklega er þó þörf á bættum samgöngum og innviðum til að hægt sé að uppfylla þá möguleika og tækifæri sem eru til staðar.
Opinber störf
Fjöldi opinberra starfa getur verið einföld nálgun á umsvif ríkisins á tilteknum stað eða landsvæði. Byggðastofnun hefur um árabil tekið saman gögn um opinber störf og birt sem stöðugildi á hverju landsvæði. Þar eru störf á vegum ríkisins skilgreind með eftirfarandi hætti: „[…] stöðugildi greidd af Fjársýslunni, stöðugildi hjá opinberum hlutafélögum og stofnunum og stöðugildi hjá stofnunum sem hafa meirihluta rekstrartekna sinna af fjárlögum.“
Í ofangreindri töflu er opinberum störfum skipt eftir átta landsvæðum árið 2021. Austurland er í sjötta sæti, einungis fyrir ofan Vestfirði og Norðurland vestra. Til að setja fjölda opinberra starfa í samhengi var Austurland í fimmta sæti (af átta) sé horft til höfðatölu hvers landshluta árið 2022.
Landsvirkjun
Kárahnjúkavirkjun á Austurlandi er stærsta vatnsaflsvirkjun landsins og leggur mikið til tekna Landsvirkjunar. Tæplega 30% af heildarraforkusala Landsvirkjunar var til Alcoa Fjarðaáls árið 2022 en það var um 35% af raforkusölu til stórnotenda Landsvirkjunar sama ár.
Sé reiknað með að Alcoa greiði að meðaltali 10% lægra verð en stórnotendur (38,6 USD/MWst) fást 186 milljónir USD (rúmir 25 milljarðar kr.) sem er 27% af heildarraforkusölu Landsvirkjunar og 31% af raforkusölu til stórnotenda Landsvirkjunar árið 2022.
Þessi grófa nálgun gefur til kynna hversu stór og verulegur hluti af tekjum Landsvirkjunar skapast á Austurlandi.
Samantekt
Austurland leggur mikið til þjóðarbúsins með tæpan fjórðung af verðmæti vöruútflutnings þrátt fyrir að þar búi innan við 3% landsmanna. Hver Austfirðingur framleiðir tífalt að meðaltali á við aðra á landinu. Sé litið til fjölda ríkisstarfa í landshlutanum virðast umsvif ríkisins tiltölulega lítil en sú fullyrðing og umfjöllun þarfnast þó mun dýpri greiningar. Það sem stendur upp úr er að tækifæri eru í landshlutanum, t.a.m. í ferðaþjónustu og áform eru um aukin umsvif í fiskeldi.
Þessi aukning kann að auka framleiðslu á Austurlandi og gjaldeyristekjur. Vaxandi umsvif á Austurlandi kalla á meira vinnuafl og auka kröfur um innviði og samgöngur. Austfirðingar hafa vakið athygli á fleiri tækifærum og nefnt að aðgengi fyrir stórar þotur á Egilsstaðaflugvelli, sem þegar fljúga yfir svæðið frá ýmsum heimshornum, geti opnað fyrir ýmsa möguleika, t.d. aukið útflutningsverðmæti í sjávarútvegi.
Prentvæn útgáfa
Þessar upplýsingar um efnahagsumsvif Austurlands, auk skýring á forsendum og aðferðum útreikningana, má nálgast í prentvænni útgáfu (PDF-skjali) hér:
Sækja PDF-skjal