Hvað er Lísa?
Lísa er hágæða, faglegt námstæki í formi smáforrits fyrir snjallsíma sem auðveldar innflytjendum að læra íslensku, aðlagast samfélaginu og eflast á vinnumarkaði.
Lísa auðveldar innflytjendum að læra íslensku, aðlagast samfélaginu og eflast á vinnumarkaði.
Fimm hæfniflokkar:
- Skilningur
- Hlustun
- Talað mál – frásögn
- Talað mál – samtal
- Ritun
Teymið sem hannar Lísu hefur áralanga reynslu af íslenskukennslu fyrir útlendinga.
Forsaga verkefnisins
Lísa hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið en hugmyndin kviknaði árið 2020 hjá Berglindi Einarsdóttur sem sá um kennslu og umsýslu íslenskunámskeiða fyrir útlendinga hjá Austurbrú, en stofnunin hefur staðið að slíkum námskeiðum í fjölmörg ár. Á þeim tíma hefur skapast hefur reynsla innan Austurbrúar, þekking og fjölbreytt námsefni verið prófað.
Á árunum 1996 til 2022 margfaldaðist fjöldi innflytjenda hér á landi; úr 5.702 talsins í 67.723. Þátttaka á íslenskunámskeiðum er ekki í samræmi við fjölda erlendra íbúa en vaktavinnumenning kemur m.a. í veg fyrir reglubundna ástundum með hefðbundnu skólasniði. Ákall er eftir nýjum lausnum frá kennurum og nemendum því íslenskukennsla er ekki til í því formi sem verið er að þróa og hanna með Lísu.
Námsefni
Námskrá er gerð með notandann í huga, byggir á Evrópska tungumála-rammanum (CEFR) og svarar ákalli um nýtt, fjölbreyttara og
meira viðeigandi námsefni. Lagt er upp með að auðvelda innflytjendum að læra íslensku, aðlagast samfélaginu og eflast á vinnumarkaði. Efnistök eru því víðtæk í Lísu og þjóna þörfum breiðs hóps notenda; grunnatriði íslenskunnar, t.d. tölur, persónufornöfn og algengar sagnir. Við tekur atvinnumiðaður orðaforði og hagnýt samfélagsfræðsla, s.s. útfyllingar eyðublaða eða leit að ákveðinni þjónustu.
Hæfniflokkarnir eru sem áður segir fimm: 1) Skilningur, 2) hlustun, 3) talað mál – frásögn, 4) talað mál – samtal og 5) ritun.
Námskráin byggir á Evrópska tungumálarammanum (CEFR) og hverjum valþætti verður skipt niður í þrep í anda rammans.
Ávinningur
Samtök atvinnulífsins hafa lengi bent á mikilvægi erlends vinnuafls á íslenskumvinnumarkaði og að þátttaka þess hafi verið lykilþátturí að skapa hagvöxt síðustu ár.
Vanda verður vel til verka við móttöku og aðlögun innflytjenda og þeir verða að fá sömu tækifæri og heimamenn, aðgang að tungumálakennslu, menntun og virkri þátttöku í íslensku samfélagi. Til notenda teljast einnig börn Íslendinga erlendis, ferðamenn og aðrir áhugasamir um íslensku.
Verkefnið í heild styður við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um menntun fyrir alla og að skapa jöfn tækifæri fyrir innflytjendur til þátttöku í íslensku samfélagi.
Samstarfsaðilar
Að verkefninu vinna þrír aðilar:
Austurbrú – Verkefnastofa sem vinnur að hagsmunum og framþróun stofnana og fyrirtækja á Austurlandi. Samræmd og þverfagleg þjónusta tengd atvinnulífi, menntun og menningu. Áralöng reynsla af íslenskukennslu fyrir útlendinga.
Stokkur – Leiðandi í þróun smáforrita á íslenskum markaði. Leggur áherslu á aðgengi og einfaldleika í hönnun. Reynsla af hönnun og framleiðslu ríflega sextíu smáforrita.
Miðeind – Leiðandi á sviði máltækni og gervigreindar fyrir íslensku og veigamikill þátttakandi í fimm ára máltækniáætlun stjórnvalda sem félagi í SÍM. Nýtir öflugustu ofurtölvu sem notuð er fyrir máltækni á Íslandi. Þéttur, öflugur og fjölbreyttur hópur fólks með brennandi áhuga á máltækni og gervigreind.
Íslenskunám framtíðarinnar
Þróun smáforrits af þessum toga er kostnaðarsöm og ljóst að fjármögnun þarf að koma úr ýmsum áttum. Verkefnið hefur þegar hlotið styrki úr Markáætlun í tungu og tækni, Fræðslusjóði atvinnulífsins og Sóknaráætlun Austurlands.
Verkefnið er í þróun og vinnslu um þessar mundir. Reiknað er með að hefja tilraunaprófanir á árinu 2024 með það markmið að Lísa verði tilbúin til almennrar notkunar haustið 2025.
Frekari upplýsingar
Ásdís Helga Bjarnadóttir
Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir
Gabríel Arnarsson