Góðir gestir
Haustþing Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fór fram í Végarði í Fljótsdal dagana 28.-29. september 2023. Þar komu saman sveitarstjórnarfulltrúar sveitarfélaganna fjögurra ásamt bæjar- og sveitarstjórum og starfsfólki fundarins en það var frá Austurbrú.
Haustþingið tók á móti góðum gestum. Eftir að formaður SSA, Berglind Harpa Svavarsdóttir, hafði sett þingið flutti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarp. Auk hans ávarpaði Ingibjörg Isaksen, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis, haustþingið.
Jákvæð sálfræði
Ragnhildur Vigfúsdóttir, fyrirlesari og markþjálfi, flutti skemmtilegan og áhugaverðan fyrirlestur um jákvæða sálfræði, styrkleika, jákvæðar tilfinningar og hamingjuaukandi aðgerðir. Þinggestir lærðu þar ýmislegt gagnlegt í samvinnu og samstarfi og skemmtu sér vel, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Hópastarf um hagsmunamál
Að erindum og fyrirlestrum loknum unnu sveitarstjórnarfulltrúarnir saman í fjórum hópum þar sem rætt var um helstu hagsmunamál og viðfangsefni landshlutans. Fjórir hópar störfuðu undir yfirskrift kaflanna fjögurra í Svæðisskipulagi Austurlands; Góð heimkynni, Svæði sóknarfæra, Sterkt samfélag og Ævintýri líkast.
Efnistök voru fjölbreytt að venju en fjallað var m.a. um heilbrigðismál, samgöngur, atvinnumál, fjarskipti, matvælaframleiðslu, menntun, skatta og tekjustofna, ferðaþjónustu og ýmis önnur samfélagsmálefni, s.s. íbúa af erlendum uppruna, íþróttir, tómstundir og menningu.
Afrakstur þessarar vinnu var svo til umfjöllunar seinni dag þingsins og myndar ályktanir SSA undir yfirskriftinni „Leysum kraftinn úr læðingi“ og skoða má hér að neðan:
Skoða ályktanirMenningarverðlaun SSA
Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hlaut menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á haustþinginu. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var stofnað á Stöðvarfirði 1996 og hefur verið eitt ötulasta útgáfufélag ljóðabóka á landinu frá aldamótum. Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA, afhendi formanni félagsins, Magnúsi Stefánssyni, verðlaunin í Snæfellsstofu.
NánarHeiðursgestur
Heiðursgestur haustþings SSA að þessu sinni var Sigríður Bragadóttir frá Vopnafirði.
Sigríður fluttist austur frá Sandgerði ásamt eiginmanni sínum, Halldóri Georgssyni, árið 1979. Þau keyptu jörðina Síreksstaði í Vopnafirði og ráku þar bú og síðar ferðaþjónustu árið með fram búskapnum. Þau hættu rekstrinum í lok árs 2017 og fluttu í þorpið þar sem þau búa enn. Sigríður er mikil félagsmálamanneskja; hefur átt sæti í sóknarnefnd, kvenfélaginu og Búnaðarfélagi Vopnafjarðar og verið virkur þátttakandi í margskonar góðgerðarmálum. Hún tók fyrst sæti á framboðslista á sjötugsaldri og sat í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps.
Formaður SSA færði Sigríði blóm og bestu þakkir fyrir framlag hennar til sveitarstjórnarmála og annarra samfélagsmála á Austurlandi.
Gögn
Dagskrá
Fimmtudagur 28. september
9:30 | Mæting í Végarð: Skráning og morgunkaffi |
10:00-10:15 |
Haustþing sett Formaður SSA, Berglind Harpa Svavarsdóttir, setur þingið. |
10:15-10:50 | Ávarp: Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra |
11:00-12:00 | Fyrirlestur: Ragnhildur Vigfúsdóttir |
12:00-13:00 | Hádegisverður á Skriðuklaustri |
13:15-13:30 | Ávarp formanns, Berglindar Hörpu Svavarsdóttur |
13:30-14:45 | Hópastarf |
14:45-15:00 | Kaffihlé |
15:00-16:00 | Ávarp: Ingibjörg Isaksen, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis |
16:00 | Dagskrá heimamanna, afhending menningarverðlauna og val heiðursgests |
19:30 | Kvöldverður í Óbyggðasetri Íslands |
Föstudagur 29. september
9:00-10:00 | Hópstjórar og ritarar hópa leggja lokahönd á hópavinnu |
10:00-11:30 | Hópar kynna vinnu sína (15 mín. á hvern hóp) |
11:30-11:45 | Kosning |
11:45 | Haustþingi slitið |
12:00 | Hádegisverður |
13:00 |
Ganga upp að Hengifossi (valfrjálst) Skráning og réttur klæðnaður nauðsynlegur. |
Starfsfólk Austurbrúar á Haustþingi SSA
Dagmar Ýr Stefánsdóttir
Jón Knútur Ásmundsson
Urður Gunnarsdóttir
Esther Ösp Gunnarsdóttir
Valdís Vaka Kristjánsdóttir
Arnar Úlfarsson