Austurbrú sótti á dögunum ferðakaupstefnuna Vestnorden ásamt Tanna Travel, Travel East og Vök Baths. Vestnorden er árlegur samstarfsviðburður Ferðamálasamtaka Norður-Atlantshafs (NATA) sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála.
Ferðakaupstefnan er jafnan haldin á Íslandi annað hvert ár og í Færeyjum eða Grænlandi þar á milli. Rúmlega 500 gestir sóttu ferðakaupstefnuna þegar hún var haldin í 39. skipti í Laugardalshöll dagana 17. og 18. október. Fulltrúar Austurbrúar áttu fundi með yfir 40 erlendum ferðaskrifstofum þar sem rauði þráðurinn var fjölgun ferðamanna í landshlutanum utan hins hefðbundna ferðatímabils. Aukinn áhugi erlendra ferðaskrifstofa á Austurlandi leynir sér ekki og þótti fulltrúum Austurbrúar ánægjulegt að sjá hversu vel erlendar ferðaskrifstofur eru farnar að þekkja landshlutann.
Við hvetjum ferðaþjónustufyrirtæki á Austurlandi til þess að kynna sér viðburðinn og taka þátt að ári liðnu. Vestnorden 2024 fer fram í Tórshavn í Færeyjum dagana 24.-25. september.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn