Um þrjátíu framleiðendur kynntu vöru sína á glæsilegu matarmóti Matarauðs Austurlands sem haldið var laugardaginn 11. nóvember í Valaskjálf á Egilsstöðum.
Á Matarmótinu, sem nú var haldið í þriðja sinn, gafst matvælaframleiðendum á Austurlandi tækifæri til að kynna vörur sínar fyrir gestum sem að þessu sinni voru um 500 talsins. Yfirskrift mótsins var Landsins gæði og hófst dagurinn á málþingi þar sem fjallað var um hvernig við nýtum landsins gæði, hvers vegna og hvernig koma eigi vörunum á framfæri.
Fyrst á mælendaskrá málþingsins var Erna Rakel Baldvinsdóttir í rannsóknar- og greiningarteymi Austurbrúar. Hún kynnti niðurstöður rannsóknar stofnunarinnar, sem byggði á könnun og vinnu rýnihópa, en þær voru m.a. að margir íbúar Austurlands nýta landsins gæði til eigin nota og gjafa, áhugi er hjá heimafólki á að fá fleiri námskeið sem felast í því að nýta þau og flest telja aðgengi að þeim gott. Mörg telja mikilvægt að auka sýnileika og aðgengi að austfirskri matvöru í austfirskum verslunum og auka ræktunarsvæði í byggðakjörnum fjórðungsins. Þá telja mörg mikla þörf á aðgengi að fullvinnslueldhúsum, mikilvægt sé að kynna austfirskar vörur undir sameiginlegu vörumerki og að samvinna sé mikilvæg milli framleiðenda og veitingaaðila.
Vigdís Hasler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, fjallaði um mikilvægi þess að við séum kunnug staðháttum og skiljum og vitum hvaðan maturinn sem við neytum, kemur. Þá fjallaði Vigdís um menningarverðmætin og kynnti verkefnið „Íslenskt staðfest“ fyrir gestum málþingsins.
Auður Vala Gunnarsdóttir og Lindsey Lee frá Blábjörgum á Borgarfirði eystri, sögðu frá nýtingu þara sem viðbót við vörur í baðhúsi hótelsins. Þær stöllur fóru yfir ferlið, frá því að hugmyndin kviknaði árið 2019 og fram til dagsins í dag.
Hönnuðirnir og hjónin Guðbjörg Gissurardóttir og Jón Árnason sögðu frá matarbrölti og nokkrum bragðgóðum lexíum, þar sem þau lögðu megináherslu á að fara af stað með hugmyndir, hafa sköpunargleðina að leiðarljósi, vanda til verka, nýta samferðafólk í að gera hluti sem við erum ekki góð í sjálf, segja söguna, tryggja að fjármálin séu í lagi og að vera tilbúin að taka áhættu.
Síðust sagði Kristín María Sigþórsdóttir upplifunarhönnuður frá því hvernig brauðmolar og sælgætishús verða minningar og sögur, svo notuð séu hennar orð. Kristín María fjallaði um hvað gerir matarupplifun einstaka, mikilvægi sögunnar, skynjunar og nálgunar á matarupplifun og það hvernig upplifunin verður heildræn. Kristín fjallaði um mikilvægi þess að þau sem bjóða uppá mat skapi sér sérstöðu, nýti nærumhverfið, séu sjálfum sér trú og dugleg að brydda uppá nýjungum. Gaman sé að prófa að para saman vörur og nýta innblástur úr langri matarsögu Íslendinga.
Matarmótið var opið almenningi í fyrsta sinn en það hefur hingað til verið eingöngu fyrir framleiðendur og kaupendur. Gríðargóð mæting var á mótið, bæði almennings og kaupenda og standa vonir til að nýjar hugmyndir og viðskipti líti dagsins ljós í framhaldinu.
Tveir nýir hópar framleiðenda fengu boð um að vera með á Matarmótinu; annars vegar fólk sem er í matvælaframleiðsluhugleiðingum og hins vegar framleiðendur vara úr austfirsku hráefni. Stöðfirðingar buðu uppá súrdeigsbrauð, rabarbarakaramellur, kaffi og ýmislegt fleira. Einnig voru á mótinu sýndar lífrænar snyrtivörur frá Fáskrúðsfirði, skurðarbretti úr Hallormsstaðaskógi og dúnsængur frá Vopnafirði.
Síðast en ekki síst voru á Matarmótinu góðir gestir úr Hótel- og veitingaskólanum. Þar fór fremstur í flokki Ægir Friðriksson, ásamt þremur kokkanemum sem allir eiga ættir sínar að rekja til Austurlands. Þeir félagar höfðu úr að moða fjölbreyttu hráefni frá Austurlandi; saltfisk, harðfisk, makríl, síld, urrara, hreindýrahjörtu, hreindýratungu, skyr, bygg, villisveppi, salt, rófur, kartöflur og sitthvað fleira. Úr þessum hráefnum töfruðu þeir fram fallega og bragðgóða rétti sem gestir Matarmótsins gerðu góð skil og góðan róm að.
Ánægjulegt var að sjá fólk úr flestum byggðakjörnum fjórðungsins og mátti heyra mörg segja að fjöldi matvælaframleiðenda og fjölbreytileikinn í framleiðslunni kæmi ánægjulega á óvart. .
Í lok dags var haldinn aðalfundur Austfirskra krása þar sem m.a. var fjallað um hugmyndir nýrrar stjórnar að nýju hlutverki félagsins og nýju nafni. Sú vinna heldur áfram.
Austurbrú er þegar farin að huga að næsta Matarmóti, að áframhaldandi þróun viðburðarins og aukins sýnileika Austurlands sem er í fararbroddi þegar kemur að nýtingu landsins gæða, samstarfi og sýnileika austfirskra framleiðenda úr austfirsku hráefni
Meðfylgjandi myndir tók Tara Tjörvadóttir.
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn