Skriðuklaustur í Fljótsdal hlaut nýsköpunarviðurkenningu Samtaka ferðaþjónustunnar á afmælisráðstefnu samtakanna í síðustu viku. „Að fá svona viðurkenningu skiptir miklu máli því að hún staðfestir að við erum að þrjóskast við að gera eitthvað sem máli skiptir fyrir gestina og söguferðaþjónustu almennt,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar.
Samtök ferðaþjónustunnar afhentu nýsköpunarverðlaun og nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar á glæsilegri afmælisráðstefnu samtakanna – Samtaka í 25 ár – sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í síðustu viku. Það var fyrirtækið Pink Iceland sem hlaut nýsköpunarverðlaunin en þetta er raunar í annað sinn sem fyrirtækið hlýtur verðlaunin. Að venju veitti dómnefndin jafnframt nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar og hana hlaut Skriðuklaustur í Fljótsdal sem hefur um langt árabil verið vinsæll áfangastaður ferðamanna á Austurlandi. Í umsögn dómnefndar segir:
„Skriðuklaustur er sögustaður með rústum miðaldaklausturs frá 16. öld. Minjar klaustursins voru grafnar upp á árunum 2002-2012 í einni umfangsmestu fornleifarannsókn síðari ára. Á Skriðuklaustri stendur líka herragarðshúsið sem rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson byggði árið 1939 þegar hann sneri heim eftir 30 ára dvöl í Danmörku. Í Gunnarshúsi er sýning um klaustrið og safn um Gunnar skáld með persónulegri leiðsögn fyrir gesti. Þar er jafnframt hið rómaða veitingahús Klausturkaffi.
Undanfarin ár hafa forstöðumenn Skriðuklausturs unnið að stafrænni þróun sýninganna t.d. með leikjavæðingu safnsins. Verkefnið varð til í gegn um Evrópuverkefni sem snerist um að búa til verkfærakistu fyrir menningarsetur til að minnka kostnað við að búa til sinn eigin sýndarveruleika. Gestum gefst nú tækifæri til þess að ganga um miðaldraklaustrið, eins og staðarhaldarar telja að það hafi litið út samkvæmt heimildum og minjum, með hjálp sýndarveruleika.
Nýjasta viðbótin er „Uggi litli“, sem er persóna úr einni af sögum Gunnars Gunnarssonar. Viðbótin er svokallað „augmented reality“ (aukinn veruleiki) þar sem gestir notast við símana sína til þess að skyggnast betur inn í lífið á Skriðuklaustri og kynnast betur höfundinum Gunnari Gunnarssyni og verkum hans.“
Gunnarsstofnun hefur um árabil lagt áherslu á nýsköpun og nýtt stafrænar lausnir við menningarmiðlun. Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður, segir það hafa verið metnaðarmál fyrir stofnunina að tileinka sér nýja tækni. „Við höfum haft bolmagn, m.a. vegna þátttöku í alþjóðlegum verkefnum, til að tileinka okkur nýjustu tækni til að miðla sögu miðaldaklaustursins m.a. með sýndarveruleika og leikjavæðingu,“ segir hann. „Síðastliðið vor tókum við fyrsta skrefið með nýja miðlun á verkum og ævi Gunnars skálds. Þá fæddist til að mynda Uggi litli, stafrænn leiðsögumaður sem fylgir yngri kynslóðum um húsið í auknum raunveruleika (AR).
Hann segir viðurkenninguna þýðingarmikla fyrir starfsemina og vonast til að hún hafi jákvæð áhrif á safnastarf í nærumhverfinu. „Að fá svona viðurkenningu skiptir miklu máli því að hún staðfestir að við erum að þrjóskast við að gera eitthvað sem máli skiptir fyrir gestina og söguferðaþjónustu almennt. Því að með því að ryðja brautina og sýna fram á möguleikana til miðlunar með snjalltækjum, sem eru bæði orðnir aðgengilegri og ódýrari en fyrir fáum árum, þá vonumst við til að hafa áhrif á önnur söfn og setur á Austurlandi og víðar um land. Nýjar kynslóðir kalla á nýja miðlun og tæknin er tækifæri en ekki ógn. Snjallsíminn er töfrastokkur sem við getum nýtt í þágu menningarmiðlunar í meira mæli en gert hefur verið og við erum svo sannarlega reiðubúin að miðla af okkar reynslu og þekkingu,“ segir Skúli Björn sem hefur í nógu að snúast þessa dagana. „Um þessar mundir erum við að hefja vegferð í nýju þriggja ára verkefni sem stutt er af Norðurslóðaáætlun ESB og hluti af því er að halda áfram að þróa og nýta stafrænar lausnir til skrásetningar og miðlunar á menningararfinum,“ segir hann og bætir við: „Veturinn á Skriðuklaustri mun fara í vinnustofur sem tengjast því verkefni ásamt fleiru og næsta vor verður eitthvað nýtt að skoða og prófa fyrir gesti okkar. Næsta á dagskrá er þó Grýlugleði og árlegir viðburðir tengdir Aðventu Gunnars.“
Þess má geta í lokin að nýsköpunarverðlaunin féllu í skaut Austurlands í fyrra þegar Vök Baths hlotnaðist þessi heiður og árið 2016 varð Óbyggðasetur Íslands hlutskarpast. Það má því segja að Austfirðingar hafi verið sigursælir á þessum vettvangi síðustu árin enda hefur ferðaþjónustan verið í mikilli sókn eystra.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn