Uppbyggingarverkefni á Austurlandi voru kynnt á eina stærstu fjárfestinga- og fasteignaráðstefnu heims 12-15. mars en hún er haldin árlega í Cannes í Frakklandi. Fulltrúar Austurbrúar tóku þátt í ráðstefnunni, MIPIM, með öðrum landshlutasamtökum og Íslandsstofu en alls voru þátttakendur yfir 20.000 úr öllum geirum fasteignaviðskipa, s.s. verktakar, fjárfestar, byggingaraðilar, arkitektar, hótelkeðjur, tæknifyrirtæki og fulltrúar borga og héraða.
Á meðal þeirra uppbyggingarverkefna sem kynnt voru á ráðstefnunni voru uppbygging miðbæjar á Egilsstöðum og íbúða- og hóteluppbygging víðs vegar um fjórðunginn. Ráðstefnur af þessu tagi nýtast vel til að vekja áhuga erlendra fyrirtækja á mögulegum fjárfestingum og verkefnum og skapa tengsl, sem síðan er fylgt eftir. Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar Austurlands sækja ráðstefnuna sem hefur verið haldin í rúmlega 30 ár. Auk landshlutasamtakanna og Íslandsstofu tók á annan tug fulltrúa íslenskra fyrirtækja og þróunarverkefna þátt. Eliza Reid forsetafrú kynnti íslensku þátttakendurna og var einn aðalgesta sýningarinnar.
Fransk-íslenska viðskiparáðið og sendiráð Íslands skipulögðu ennfremur heimsókn í tæknigarðinn Sophia Antipolis rétt fyrir utan Cannes en það er er næststærsti tæknigarður heims, aðeins Silicon Valley í Bandaríkjunum eru stærri. Tæknigarðurinn hýsir fjölda stórra sem smárra tæknifyrirtækja og þróunardeildir risafyrirtækja á borð við bílaframleiðenda og fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum. Lýstu forsvarsmenn hans miklum áhuga á samstarfi við íslensk fyrirtæki.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn