Í gær fór fram „Hoppsa Bomm – Stefnumót um framtíð skíðasvæðanna á Austurlandi” þar sem áttu sér stað fjörugar og skemmtilegar umræður um skíðasvæðin tvö á Austurlandi, í Oddsskarði og Stafdal. „Tilgangurinn var að draga fram hvaða tækifæri heimamenn á Austurlandi sjá í eflingu þessara svæða,” segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, en Austurbrú sá um skipulagningu stefnumótsins.
Um fimmtíu manns mættu á Hoppsa Bomm sem haldið var á Hótel Berjaya eftir hádegi í gær. Stefnumótið var brýnt en kallað var eftir því úr ýmsum áttum að Austurbrú skipulegði vettvang fyrir Austfirðinga til að ræða um framtíð skíðasvæðanna.
„Tilgangurinn var að draga fram hvaða tækifæri heimamenn sjá í eflingu þessara svæða,” segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, en stofnunin sá um skipulagningu stefnumótsins. „Þessi svæði skipta okkur miklu máli,” segir hún, „öflug skíðasvæði eru mikilvæg til að hægt sé að þróa heilsársferðaþjónustu en þau skipta ekki síður þá sem búa hérna miklu máli sem og það fólk sem gæti hugsað sér að flytja austur.”
Á stefnumótinu komu fram fulltrúar sveitarfélaga og fyrirtækja sem lýstu stöðunni eins og hún er í dag og fóru yfir mögulega framtíðarsýn og tækifæri sem felast í eflingu skíðasvæðanna.
Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir hjá Múlaþingi og Magnús Árni Gunnarsson hjá Fjarðabyggð ráku í sínum erindum kostnað við rekstur svæðanna, áskoranir og tækifæri til framtíðar.
Smári Kristinsson, skíðaáhugamaður og framkvæmdastjóri hjá Alcoa Fjarðaáli, lýsti skoðunum sínum á mikilvægi skíðasvæðanna og taldi þau hafa mikið aðdráttarafl fyrir nýja íbúa. Hann hvatti til samvinnu skíðasvæðanna og sagði bættar samgöngur innan landshlutans bjóða upp á mörg tækifæri til að byggja upp svæðin.
Ingimar Elí Hlynsson, sölustjóri hjá Icelandair, fór yfir stöðuna út frá sjónarhorni fyrirtækisins. Hann sagði gríðarleg tækifæri fólgin í vetrarferðamennsku á Austurlandi og hvatti heimamenn til að búa til spennandi „pakka” fyrir ferðamenn.
Sævar Guðjónsson, ferðaþjónustubóndi á Mjóeyri, lýsti sínum skoðunum á málinu en hann tekur á móti fjölda ferðamanna sem sækjast eftir því að komast á skíði fyrir austan. Hann lýsti auk þess sjónarmiðum heimamanns en hann hefur iðkað skíði frá barnsaldri og taldi nær útilokað að hann byggi fyrir austan ef ekki væri fyrir skíðasvæðið í Oddsskarði. Hann taldi það raunar skoðun margra að skíðasvæðin væru gríðarlega mikilvæg lífsgæði fyrir þá sem hér búa.
Sólborg Steinþórsdóttir, hótelstjóri Berjaya Hotels á Egilsstöðum, fjallaði um mikilvægi markaðssetningar í sínu máli þ.e. að upplýsingar um skíðasvæðin væru traustar og aðgengilegar og benti auk þess á þýðingu skíðasvæðisins á Akureyri fyrir ferðaþjónustu fyrir norðan, að aðdráttarafl þess fyrir innlenda og erlenda ferðamenn yrði seint ofmetið.
Guðmundur Karl Jónsson var síðastur á mælendaskránni en hann er skíðarekstrarfræðingur, var forstöðumaður í Hlíðarfjalli um tíma og kom raunar að því að byggja upp skíðasvæðið þar. Hann rakti uppbyggingarsöguna fyrir norðan og hvernig samfélagið tók höndum saman um að efla skíðasvæðið m.a. með fjárframlögum frá einkafyrirtækjum.
Í beinu framhaldi af framsögunum tóku stefnumótsgestir þátt í umræðum sem voru einstaklega líflegar og skemmtilegar. Gestir unnu saman í hópum en svo gafst tími fyrir opnar umræður og fyrirspurnir í lokin. Umræðurnar fóru um víðan völl en lagt var upp með nokkrar spurningar sem hver hópur þurfti að svara. Hóparnir veltu fyrir sér hvernig hægt væri að fá meira fé inn í starfsemina, hvernig hægt væri að auka aðdráttarafl svæðanna og hvernig þau gætu unnið meira saman. Austurbrú mun taka saman helstu niðurstöður umræðunnar og birta opinberlega á næstu dögum.
Dagmar Ýr segist afar ánægð með stefnumótið, mætingin hafi verið góð, erindin fróðleg og skemmtileg, umræðurnar opinskáar og umfram allt hafi stemmningin í hópnum verið góð og greinilegt að fólki þykir vænt um skíðasvæðin sín.
„Það er ánægjulegt fyrir okkur hjá Austurbrú að taka þátt í svona verkefnum,” segir hún, „þetta er eitt af meginhlutverkum okkar þ.e. að skapa vettvang fyrir Austfirðinga að ræða saman, auka samvinnu og tryggja að við róum öll í sömu áttina. Við eigum sameiginlega framtíðarsýn í Svæðisskipulagi Austurlands 2022 – 2044 og með virku samráði við samfélagið er ég sannfærð um að okkur muni takast að hrinda þeirri framtíðarsýn, sem þar birtist, í framkvæmd.”
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn