Í desember á síðasta ári ákvað Eygló, í samstarfi við Austurbrú, að ganga til samninga við Environice, sem er íslenskt ráðgjafarfyrirtæki á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar, um gerð úttektar á kolefnisspori Austurlands en fyrirtækið hefur unnið svipaðar úttektir fyrir aðra landshluta á Íslandi sem hafa viljað stíga skref í átt að markvissri kolefnisjöfnun.

Eygló er samstarfsverkefni sveitarfélanna á Austurlandi, Landsvirkjunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um eflingu orkuskipta, orkunýtni og hringrásarhagkerfis á Austurlandi og markmiðið með úttektinni er að leggja mat á kolefnisspor landshlutans sem er nauðsynlegt svo hægt sé að setja mælikvarða á árangur Austurlands í því að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum.

Verkefnið fólst í greiningu á helstu orsakavöldum kolefnislosunar í landshlutanum, svo sem í samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, neyslu íbúa o.fl. Á grunni niðurstaðnanna voru síðan greindir möguleikar á annars vegar samdrætti í losun kolefnis og hins vegar á mótvægisaðgerðum sem mögulegt væri að grípa til á Austurlandi.

Environice hefur nú lokið við gerð úttektarinnar og mun framkvæmdastjóri þess, Stefán Gíslason, kynna niðurstöðurnar á opnum fundi, þriðjudaginn 4. júní frá 11:30 til 13:00, sem haldinn verður í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.

Öll eru velkomin og boðið verður upp á léttar veitingar.

Facebook: Kynning á kolefnisspori Austurlands

Allar nánari upplýsingar veitir Eva Mjöll Júlíusdóttir // [email protected] // 860 1178

Nánari upplýsingar um Eygló