Dagana 27.-28. ágúst var haldinn ársfundur Samtaka þekkingarsetra á Stéttinni á Húsavík. Samtök þekkingarsetra (SÞS) voru stofnuð 22. apríl 2020 en um er að ræða netverk þekkingarsetra á landsbyggðinni sem starfa samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Alls eru starfrækt sjö þekkingarsetur víðsvegar um landið og eru þau öll aðilar að samtökunum. Þetta eru: Nýheimar þekkingarsetur, Austurbrú, Þekkingarnet Þingeyinga, Þekkingarsetur Suðurnesja, Þekkingarsetur Vestmannaeyja, Háskólafélag Suðurlands og Þekkingarsetur Blönduósi – Textílmiðstöð Íslands. Fyrir hönd Austurbrúar tóku þátt yfirverkefnastjórar rannsókna og fræðslumála sem hittu þar fyrir forstöðumenn og starfsmenn þekkingarsetranna. Tengslamyndun í stóru samstarfi sem þessu er mikilvæg og þó reglulegir fjarfundir eigi sér stað á vettvangi samtakanna er staðfundur þar sem allir hittast í raunheimum nauðsynlegur hluti af góðu samstarfi.
Á fundinum var farið yfir hagsmunamál samtakanna en beðið er eftir nýjum samningum við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um verkefni og fjármögnun. Einnig var farið yfir mögulega samstarfsfleti og samvinnuverkefni, meðal annars hlutverk samtakanna varðandi óstaðbundin störf, en setrin eru kjörinn vettvangur til að koma fyrir slíkum störfum. Starfsmenn Þekkingarnets Þingeyinga voru hinir bestu gestgjafar og dagskráin góð blanda af vinnu og óformlegri samveru þar sem meðal annars var farið í gönguferð um hafnarsvæðið á Húsvík, heimsókn í Húsavík brugghús og endað á heimsókn í Geosea-sjóböðin.
Á aðalfundi var kosið í nýja stjórn. Í stjórninni eru nú Hugrún Harpa Reynisdóttir frá Nýheimum Þekkingarsetri, Hanna María Kristjánsdóttir frá Þekkingarsetri Suðurnesja og Elsa Arnardóttir frá Textílmiðstöð Íslands sem tók jafnframt að sér stjórnarformennsku.
Myndir: Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn