Austurbrú hefur reglulega tekið þátt í ráðstefnu um dreifðar byggðir á Norðurlöndunum sem kallast Nordic ruralities. Á fyrri ráðstefnum hefur Austurbrú verið með tvö til fjögur erindi til að kynna eigin rannsóknir og verkefni en í ár mættum við til að heyra það sem aðrir hafa verið að fást við í þeim tilgangi að fá hugmyndir og kanna möguleg samstarf. Áskoranir dreifðra byggða eru um margt líkar á öllum Norðurlöndunum; fólksfækkun, samþjöppun að ákveðnum kjörnum, breytt samsetning mannfjöldans, aðgengi að þjónustu og vannýtt tækifæri til nýsköpunar í einhæfu atvinnulífi.
Tinna Halldórsdóttir, yfirverkefnastjóri rannsókna og samfélagsþróunar, og Sara Elísabet Svansdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og skipulagsverkefna, mættu fyrir hönd Austurbrúar.
Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var Nordic Ruralities – New paths to sustainable transitions? Norrænar dreifbyggðir – Nýjar leiðir að sjálfbærum umbreytingum?
Ráðstefnan var haldin í Kiruna í Svíþjóð, nánar tiltekið í Lapplandi, dagana 3.-5. desember. Kiruna er nyrst sveitarfélaga Svíþjóðar og er hluti af Sápmi, landi Sama, og heimili samískra frumbyggja í þúsundir ára. Þar má einnig finna Icehotel í Jukkasjärvi, hæsta fjalls Svíþjóðar, Kebnekaise, og stærstu neðanjarðarjárnnámu í heimi. Náma sem veldur því að bæinn Kiruna, sem telur um 22 þúsund íbúa, er verið að flytja. Ástæðan sú að fólk óttast að bærinn hreinlega hrynji ofan í jörðina sem er mjög óstöðug eftir allan námugröftinn. Flutningur bæjarins er gríðarstórt verkefni sem á að vera lokið 2035.
Kiruna er því sannarlega að glíma við miklar breytingar og fullkominn fundarstaður fyrir norræna dreifbýlisrannsóknasamfélagið. Á þessum árstíma er dagsbirtan um ein til tvær klukkustundir en 11. desember sl. hvarf hún og heimskautanótt ríkir því til nýársdags.
Dagskrá ráðstefnunnar var samansett af fjölmörgum erindum frá hinum ýmsu rannsakendum, doktorsnemum, stofnunum og sveitarfélögum og snerust öll um dreifðar byggðir út frá einu af þeim fjórum þemum sem sett voru fyrir ráðstefnuna. Þau voru:
Ráðstefnan hefur verið haldin annað hvert ár í maí/júní síðan 2010 og til skiptis á Norðurlöndunum. Síðast var ráðstefnan haldin í Danmörku árið 2018. Upphaflega var áætlað að sjötta ráðstefnan yrði haldin í Tahko í Finnlandi árið 2020 en var frestað vegna heimsfaraldursins. Ráðstefnan í ár er tímabundin tilfærsla og árið 2026 verður ráðstefnan haldin í maí að venju.
Norræna dreifbýlisráðstefnan um dreifbýlisrannsóknir er tækifæri til að miðla þekkingu og reynslu um rannsóknir sem tengjast samhengi Norðurlandanna. Ráðstefnan hefur undanfarin ár laðað til sín allt að 300 vísindamenn úr ýmsum greinum.
Nánar um viðvangsefni ráðstefnunnar má lesa í heildstæðu yfirliti yfir öll erindi sem finna má hér.
„Verkefni Austurbrúar tengjast mjög byggðaþróun í víðu samhengi s.s. rannsóknir, atvinnuþróun, menningarmálefni og ferðamennska. Því er mikilvægt fyrir okkur að fylgjast með því sem er að gerast í sambærilegum byggðum í löndunum í kringum okkur og spegla okkar aðferðir, nálgun og verkefnaval. Þannig getum við séð tækifæri, mögulegar lausnir og deilt því sem við erum að gera. Í starfsáætlun Austurbrúar fyrir 2025 endurspeglast áherslur okkar í byggðaþróun og rannsóknum þar sem við munum leggja áherslu á ýmis skipulagsmál, nýsköpun í atvinnulífi og rannsaka áfram samfélag sem býr við náttúruvá,“ segir Tinna.
Það sem kom fram á ráðstefnunni var m.a. að norræn sveitarfélög eru að endurskilgreina sig. Fjarvinna hefur aukist sem og fólksflutningar. Fækkun fólks heldur áfram á mörgum svæðum á meðan sum dreifbýli blómstra.
Mikilvægi staðarvitundar virðst jafnfram vera að aukast. „Mörg okkar finnum til þess að við tengjumst ákveðnum stöðum í dreifbýli en búum kannski ekki þar af mismunandi ástæðum. Þessi ferli hafa áhrif á félagslega samheldni og félagslega aðgreiningu í dreifbýli sem og uppbyggingu sjálfsmynda þvert á landamæri og staði,“ segir Tinna en meðal umræðuefna og spurninga sem varpað var fram á ráðstefnunni voru:
Tinna og Sara segja margar áhugaverðar rannsóknir hafa verið kynntar og greinilegt að félagsvísindafólki skortir ekki viðfangsefni. Þær segja að það hafi t.d. verið áhugavert að hlýða á erindi um frumkvöðlastarfsemi þar sem rannsakendur veltu því t.d. fyrir sér hvernig frumkvöðlastarf verði til. Hvernig getur ný staða í landsbyggðunum ýtt undir frekari nýsköpun og frumkvöðlamenningu? Og hvernig er hægt að nýta þekkingu á frumkvöðlastarfi til að ýta undir enn frekari nýsköpun og atvinnuþróun.
Dreifbýlis- og landbúnaðarstjórnmál voru líka til umræðu og velti fólk fyrir sér hvernig stjórnmálin taka á málefnum landsbyggða. Endurspeglast veruleiki dreifbýlisins í stefnumótun stjórnvalda? Hvernig skiptast niðurgreiðslur til frumkvöðlastarfs og iðnaðar milli dreifbýlis og þéttbýlis? Hver er merking staðbundinna upplýsinga í byggðaþróun og byggðastefnu?
Sem fyrr segir hefur Austurbrú reglulega tekið þátt í Nordic ruralities og skipta svona viðburðir okkur miklu. Þarna er oft sáð fræjum sem enda með tilurð nýrra verkefna, tengslanetið stækkar sem og þekking okkar á samfélögum hinna dreifðu byggða.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn