Lilja Sigríður Jónsdóttir hefur tekið til starfa hjá Austurbrú sem verkefnastjóri ferðamála. Hlutverk hennar felst í að efla markaðssetningu Austurlands sem áfangastaðar, byggja upp sterkt samstarf við hagaðila og stuðla að þróun Áfangastaðastofunnar.
Lilja er uppalin á Egilsstöðum og Hallormsstað en hefur síðustu ár búið í Noregi. Hún sneri nýverið aftur til Egilsstaða: „Ég hef alltaf borið sterkar tilfinningar til Austurlands og tel að svæðið sé ótrúlega einstakt. Náttúran, menningin og afþreyingin sem boðið er upp á hér gefa því mikið vægi sem áfangastaðar,“ segir Lilja.
Hún bætir við að starfið hjá Austurbrú hafi verið spennandi tækifæri til að láta til sín taka í þessum málum. „Þegar ég sá auglýsinguna um verkefnastjóra ferðamála hjá Áfangastaðastofu Austurlands vissi ég að þetta væri fullkomið fyrir mig. Ég hef mikinn áhuga á ferðamálum og vil leggja mitt af mörkum til að styrkja ímynd og aðdráttarafl landshlutans.“
Lilja hefur reynslu af ferðamálum í Noregi og lítur á hana sem dýrmætan styrk í nýja starfinu. „Í Noregi hefur samstarf hagaðila og markaðssetning verið afar árangursrík. Ég sé mikil tækifæri til að útfæra svipaðar lausnir hér, sem gætu skilað góðum árangri fyrir bæði heimamenn og ferðamenn.“
Helstu áherslur hennar í starfinu verða að efla markaðsstarf Austurlands, byggja upp öflugt samstarf við hagaðila og nýta styrkleika svæðisins. Lilja er með brennandi áhuga á náttúruupplifunum og ljósmyndun og hlakkar til að kynnast betur Austurlandi í gegnum starfið.
Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa hjá Austurbrú og hlökkum til að sjá hvernig hennar reynsla og hugmyndir munu efla ferðaþjónustu á svæðinu!
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn