Meðal helstu umræðuefna voru samgöngumál á Austurlandi, þar sem lögð var áhersla á að rjúfa kyrrstöðu í gangaframkvæmdum, endurgerð Suðurfjarðarvegar og veglagningu heilsársvegar yfir Öxi. Einnig var fjallað um tækifæri til aukins millilandaflugs, mikilvægi Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvallar fyrir alþjóðaflug og þær framkvæmdir sem nauðsynlegt er að ráðast í þar, auk möguleika á lengingu flugbrautar samhliða byggingu nýrrar Lagarfljótsbrúar.

Á fundinum var jafnframt rætt um góða samvinnu sveitarfélaga á Austurlandi, sem birtist meðal annars í svæðisskipulaginu og nýrri sóknaráætlun landshlutans. Ráðherra sýndi sérstakan áhuga á að fræðast um reynsluna af sameiningum sveitarfélaga á Austurlandi og hvernig heimastjórnir hafi reynst í framkvæmd.

„Fundurinn var góður og ítrekað var við ráðherra mikilvægi þess að líta á gangaframkvæmdir á Austurlandi sem eitt heildstætt verkefni, sem er forsenda þess að svæðið verði hringtengt og að það geti unnið saman sem ein heild,“ segir Dagmar. Í því samhengi var einnig rætt um samgöngutengingu við Vopnafjörð með jarðgöngum, sem sé lykilskref í átt að því að Austurland geti í framtíðinni orðið eitt sveitarfélag.

Samtalið við ráðherra hélt áfram í gær þegar nýjar sóknaráætlanir landshlutanna voru undirritaðar í Norræna húsinu. „Ljóst er að sveitarstjórnarmál og samgöngur eru lykilatriði fyrir okkur Austfirðinga og þetta samtal við ráðherra er rétt að byrja,“ segir Dagmar.