Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Sigurður Hannesson, heimsótti Austurland í gær og átti viðtöl við fjölbreytta hópa hagsmunaaðila, þar á meðal félagsmenn SI, fulltrúa sveitarfélaga, fyrirtækja og Austurbrúar. Heimsóknin er hluti af undirbúningi Iðnþings, aðalfundar SI, sem haldinn verður í byrjun mars.
Starfsmenn Austurbrúar, þau Signý Ormarsdóttir, Urður Gunnarsdóttir og Páll Baldursson, áttu í gær góðan fund með Sigurði. Á fundinum var lögð sérstök áhersla á umræður um nýja Sóknaráætlun Austurlands 2025-2029 og þau tækifæri og áskoranir sem tengjast atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Einnig var fjallað um hindranir sem gætu torveldað frekari sókn atvinnulífsins, þar á meðal samgöngur, húsnæðismál og orkuskort.
Sigurður lagði áherslu á mikilvægi þess að greina þær áskoranir sem sveitarfélög og fyrirtæki á Austurlandi standa frammi fyrir og hvernig hægt sé að bregðast við þeim með markvissum hætti. Hann þakkaði fyrir innsýn í vinnu Austurbrúar við innleiðingu Sóknaráætlunar og hvernig hún tengist beint framtíðarsýn svæðisins um sjálfbæra þróun, fjölbreytt atvinnulíf og aukin lífsgæði íbúa.
Austurbrú fagnar því að geta átt samtöl við hagsmunasamtök á Íslandi. Fundurinn með Sigurði var góður og við væntum áframhaldandi samstarfs í takt við markmið Sóknaráætlunar, sem miðar að því að efla svæðið sem samkeppnishæfan og sjálfbæran landshluta með fjölbreyttum tækifærum til vaxtar.
Mynd: Signý Ormarsdóttir, Sigurður Hannesson, Urður Gunnarsdóttir og Páll Baldursson.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn