Sköpunarmiðstöðin Stöðvarfirði

Frumkvæðissjóður styrkir spennandi verkefni

Frumkvæðissjóður byggðaþróunar Sterks Stöðvarfjarðar fékk 15 umsóknir í ár, með fjölbreyttum og skapandi verkefnum. Úthlutað verður 11,4 milljónum króna, og niðurstöður verða kynntar í byrjun mars.

Þetta er í fjórða sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Frá upphafi hafa 48 verkefni hlotið styrk, samtals yfir 23 milljónir króna, sem hefur stuðlað að fjölbreyttri þróun á svæðinu. Meðal verkefna sem hafa notið góðs af sjóðnum eru Fræ Sköpunareldhús, Kaffibrennslan Kvörn og Brauðdagar deighús. Einnig hafa verið styrkt tónleikar, göngustígar og ýmis afþreyingarverkefni.

Nýverið kom út ársskýrsla verkefnisins Sterkur Stöðvarfjörður fyrir árið 2024, þar sem farið er yfir árangur og þróun verkefnisins á síðasta ári. Þar má meðal annars finna umfjöllun um styrkt verkefni, starfsemi verkefnisstjórnar og markmið til framtíðar. Skýrsluna má nálgast hér: Sterkur Stöðvarfjörður – ársskýrsla 2024.

Árið 2024 var viðburðaríkt fyrir Sterkan Stöðvarfjörð. Verkefnisstjórn fundaði tíu sinnum í gegnum fjarfundabúnað og hélt tvo fjarfundi í tengslum við úthlutanir úr Frumkvæðissjóðnum. Þann 29. ágúst hittist stjórnin á Stöðvarfirði í tengslum við íbúafund, þar sem kynnt voru nokkur styrkt verkefni. Þar á meðal var heimsókn í Fræ Sköpunareldhús þar sem þátttakendur fóru í jógagöngu, kynntu sér leirlist o.fl.

Frumkvæðissjóðurinn er hluti af byggðaþróunarverkefninu Sterkur Stöðvarfjörður, sem miðar að því að styðja við fjölbreytta atvinnuþróun og efla samfélagið á Stöðvarfirði. Verkefnið hefur stutt við sprotafyrirtæki, menningarverkefni og samfélagslega nýsköpun sem stuðlar að sjálfbærni og bættum búsetuskilyrðum í byggðinni.

Frekari upplýsingar um sjóðinn og verkefnið Brothættar byggðir má finna hér.

Nánari upplýsingar


Valborg Ösp Árnadóttir Warén

869 4740 // [email protected]

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn