Þegar ný geðræktar- og virknimiðstöð verður opnuð á Austurlandi síðar á árinu mun hún bjóða upp á úrræði fyrir einstaklinga sem ekki eru á vinnumarkaði eða í starfsendurhæfingu en vilja engu að síður vinna í sér og ná bata. Nú er unnið að því að undirbúa opnun geðræktarmiðstöðvar á Austurlandi og hluti af þeirri vinnu er þarfakönnun meðal íbúa Austurlands og mögulegra framtíðarnotenda. Til að tryggja að miðstöðin mæti raunverulegum þörfum er mikilvægt að fá innsýn og hugmyndir frá samfélaginu og því höfum við sett í loftið könnun til að safna upplýsingum um væntingar fólks til slíkrar starfsemi. Þú getur tekið þátt í könnuninni og haft áhrif á mótun þessa nýja úrræðis með því að smella á hlekkinn neðar í fréttinni.
„Þetta snýst um að skapa vettvang sem við teljum að sé sárlega þörf á Austurlandi fyrir einstaklinga sem kannski eru utan atvinnumarkaðar eða starfsendurhæfingarúrræða en hafa engu að síður áhuga á að vinna í sér og ná fullum bata. Geðræktar- og virknimiðstöðvarnar verða samastaðir fyrir þessa einstaklinga, þar sem þeir geta komið saman, notið félagsskapar og þannig kveikt virkni hjá viðkomandi,“ segir Sigurlín H. Kjartansdóttir, yfirsálfræðingur Heilbrigðisstofnunar Austurlands, í viðtali við Austurfrétt um verkefnið.
Þetta verkefni er samstarf Austurbrúar, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Starfsendurhæfingar Austurlands og félagþjónustu Fjarðabyggðar og Múlaþings og unnið fyrir styrk úr Alcoa Foundation. Næstu skref í verkefninu fela í sér að hefja tilraunastarfsemi í haust á tveimur stöðum, á Egilsstöðum og í Reyðarfirði.
Undirbúningsferlið er hafið og vilja aðstandendur verkefnisins ná sambandi við líklega notendur í rýnihópum sem settir verða saman í Fjarðabyggð og Múlaþingi. Áhugasamir um þátttöku í þessu samtali eru hvattir til að hafa samband við verkefnisstjóra hjá Austurbrú eða tengiliði hjá samstarfsaðilum verkefnisins.
Þá er hægt að taka þátt í spurningakönnun með því að smella á þennan hlekk. Áætlað er að það taki 2-5 mínútur að svara henni.
Sjá eldri frétt um verkefnið.
Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn