Skilar raunverulegum árangri á Austurlandi

Könnun meðal umsækjenda staðfestir að sjóðurinn leiðir af sér áframhaldandi verkefni, ný störf og aukna fjármögnun — og nú hefur verið brugðist markvisst við ábendingum til að bæta ferlið enn frekar.

Könnunin sýnir með óyggjandi hætti að Uppbyggingarsjóðurinn hefur raunveruleg áhrif á Austurlandi. Styrkir hafa leitt til áframhaldandi verkefna, frekari fjármögnunar og nýrra starfa. Í henni kemur líka fram að umsækjendur finna helst galla á umsóknarferlinu og óska eftir einfaldara umsóknarferli og minna skrifræði. Við því hefur þegar verið brugðist og stjórn SSA hefur samþykkt nýjar úthlutunarreglur sem byggja m.a. á niðurstöðum könnunarinnar og svo áherslum nýrrar Sóknaráætlunar Austurlands 2025-2029.

Í haust verður tekin í notkun ný umsóknargátt þar sem lögð verður áhersla á einfaldleika og notendavæna hönnun. Þá boða nýjar úthlutunarreglur þá breytingu að hækkun verður á hlutfalli styrks sem greiddur er út við upphaf verkefnis og ekki verður lengur gerð krafa um framvinduskýrslu.

Ráðgjöf frá Austurbrú reyndist lykilatriði fyrir árangur umsækjenda sem er ánægjuleg niðurstaða fyrir starfsmenn Austurbrúar. Greinilegt samband er á milli þess að umsækjendur, sem leita sér ráðgjafar hjá verkefnastjóra sjóðsins og atvinnuþróunarsviði Austurbrúar, ná betri árangri í styrkumsóknum.