Sameinuð áætlun: Minna rusl - meiri ábyrgð

Með sameiginlegri stefnu í úrgangsmálum er Austurland komið með skýra sýn og raunhæf verkfæri til að vinna markvisst að minni sóun og bættri nýtingu auðlinda. Samstaðan sem náðist um áætlunina endurspeglar sterkan vilja sveitarfélaganna til að axla ábyrgð í loftslags- og umhverfismálum.

Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Austurlandi

Áætlunin byggir á lögum um meðhöndlun úrgangs og markmiðum um úrgangsforvarnir og hringrásarhagkerfi. Þar er lögð áhersla á að draga úr myndun úrgangs, auka endurnýtingu og endurvinnslu og tryggja að sem minnst afgangsefni fari til urðunar.

„Þetta er stórt skref fyrir allt Austurland,“ segir Sara Elísabet Svansdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú. „Við höfum nú skýra, sameiginlega stefnu sem sveitarfélögin hafa mótað saman og samþykkt – og verkfærin til að hrinda henni í framkvæmd.“

Í áætluninni eru skilgreind fimm meginmarkmið, m.a. um lágmörkun flutninga með aukinni úrvinnslu á svæðinu sjálfu, forgang lífræns úrgangs og áframhaldandi samstarf sveitarfélaga um úrgangsmál og sameiginlega hagsmunagæslu. Stefnunni verður fylgt eftir með 20 aðgerðum, sem sveitarfélögin hafa sammælst um að ráðast í.

Þrjú af verkefnunum eru þegar í forgangi árið 2025:

  • Stofnun Úrgangsráðs Austurlands, sameiginlegs vinnuhóps sveitarfélaganna
  • Ráðning hringrásarfulltrúa sem leiðir innleiðingu og þjónustu við sveitarfélögin
  • Endurskoðun samþykkta og gjaldskráa þannig að þær endurspegli áherslur hringrásarhagkerfisins

Í framhaldinu verður m.a. unnið að greiningu á fyrirkomulagi sorphirðu, möguleikum heimajarðgerðar og meðhöndlunar seyru, og metin verður fýsileiki sorporkuvers á Austurlandi fyrir þann úrgang sem ekki fer til endurvinnslu.

„Ég tel að með þessari sameiginlegu sýn og stefnu sveitarfélaganna í úrgangsmálum séum við komin með frábært verkfæri til að bæta okkur í þessum málaflokki og vinna saman að minni sóun og bættri endurnotkun fyrir allt Austurland í heild sinni,“ segir Sara Elísabet að lokum.

Austurbrú mun halda utan um vöktun og eftirlit með framvindu áætlunarinnar og tryggja að aðgerðum verði hrint í framkvæmd á réttum tíma.

Nánari upplýsingar


Sara Elísabet Svansdóttir

896 8501 // [email protected]