Opnað hefur verið fyrir umsóknir um Eyrarrósina 2021 og rennur umsóknarfrestur út 26. apríl næstkomandi. Á síðustu árum hafa fimm Eyrarrósir ratað austur, nú síðast fyrir listahátíðina List í ljósi sem hlaut viðurkenninguna árið 2019.
Allt frá árinu 2005 hafa Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair (áður Flugfélag Íslands) staðið saman að Eyrarrósinni; viðurkenningu sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Á síðustu árum hafa fimm Eyrarrósir ratað austur fyrir menningarverkefnin Eistnaflug í Neskaupstað, Bræðsluna á Borgarfirði eystri, LungA á Seyðisfirði, Skaftfell – Myndlistarmiðstöð Austurlands og nú síðast árið 2019 hlaut seyðfirska listahátíðin List í ljósi viðurkenninguna.
Fyrirkomulag viðurkenningarinnar hefur verið með svipuðu sniði allt frá upphafi, en við endurnýjun samstarfssamnings í ár var ákveðið að endurskoða skipulagið með það í huga að styrkja Eyrarrósina enn frekar sem raunverulegan bakhjarl lista- og menningarlífs utan höfuðborgarsvæðisins. Samráð var haft við menningarfulltrúa á landsbyggðinni í því ferli.
Helstu breytingar á fyrirkomulagi verðlaunanna eru eftirfarandi:
Hvatningaverðlaunin eru veitt verkefnum sem eru yngri en þriggja ára en eru sannarlega nýbreytni og/eða viðbót við lista- og menningarlíf síns svæðis. Fyrir utan verðlaunaféð fá verkefnin 100 þúsund króna gjafabréf frá Icelandair.
Sem fyrr segir hefur verið opnað fyrir umsóknir um Eyrarrósina og rennur umsóknarfrestur út 26. apríl. Nánari upplýsingar og hlekk á umsóknareyðublað má finna á www.listahatid.is/eyrarrosin. Hefð er fyrir því að veita verðlaunin í heimabyggð síðasta Eyrarrósarhafa og þannig verður það áfram. Verðlaunaafhending fer nú fram í maí í stað febrúar áður. Þar sem heimildamyndahátíðin Skjaldborg hlaut viðurkenninguna síðast fer afhendingin fram á Patreksfirði í ár. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn