„Þessi stuðningur er staðfesting á vilja stjórnvalda til þess að byggja upp fleiri gáttir inn í landið, stuðla að vöruþróun í ferðaþjónustu og uppbyggingu áfangastaðarins Austurlands“ – Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Um er að ræða 40 m.kr. framlag til hvors áfangastaðar um sig, sem dreifast á næstu tvö ár. Til viðbótar er einnig í samningnum við Markaðsstofu Norðurlands 20 m.kr. styrkur til Flugklasans Air 66N, en hann er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, sveitarfélaga og hagsmunaaðila, og hefur það verkefni að markaðssetja og kynna Akureyrarflugvöll sem áfangastað fyrir millilandaflug allt árið um kring með það að markmiði að fjölga ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvöl þeirra á svæðinu.

Flugþróunarsjóður var stofnaður árið 2015 og er honum ætlað að stuðla að uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi með því að styðja við reglulegt millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Starfsemi Flugþróunarsjóðs er í samræmi við ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda til ársins 2030, sem afgreidd var frá Alþingi í júní sl. Ein aðgerðanna í aðgerðaáætluninni snýr að aukinni dreifingu ferðamanna, með styrkingu á Flugþróunarsjóði, og mun framlag til hans á næsta ári aukast um 100 m.kr. til að fylgja þeirri áherslu eftir.

„Það er mikilvægt að við höldum áfram að styðja við beint millilandaflug inn á Norðurland og Austurland. Með því erum við að stuðla að verðmætasköpun með framþróun ferðaþjónustu, minnka árstíðasveiflu og dreifa ferðamönnum víðar um landið. Slíkur stuðningur er forsenda fyrir starfsemi öflugra og fjölbreyttra fyrirtækja í ferðaþjónustu, gististaða og veitingastaða á Norðurlandi og Austurlandi, árið um kring,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Uppbygging og vöruþróun

Framboð á millilandaflugi um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Til að fylgja eftir þessari þróun munu stjórnvöld á næstunni standa að landamærakönnun á Akureyrarflugvelli, sem felst í því að Rannsóknarmiðstöð ferðamála framkvæmir rannsókn sem ætlað er að varpa ljósi á ferðahegðun þeirra sem koma með beinu millilandaflugi til Akureyrar. Niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst vel í eftirfylgni með Ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun hennar.