Austfirðir

Nýárspistill formanns SSA

„Alþingiskosningar eru nýafstaðnar og mikilvægt er að nýkjörnir Alþingismenn veki athygli á gögnum um verðmætasköpun svæðanna og vinni þannig af krafti fyrir sitt kjördæmi. Austurland hefur setið eftir varðandi alhliða uppbyggingu miðað við aðra landshluta. Það er mikið áhyggjuefni og tækifæri fyrir sitjandi Alþingismenn Norðausturkjördæmis að snúa þeirri þróun við.“

Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 markar sameiginlega framtíðarsýn sveitarfélaga á Austurlandi ásamt því að endurspegla kröftuga rödd og samstöðu fyrir löngu tímabærri innviðauppbyggingu í landshlutanum. Öllum er ljóst og gögn sýna glögglega að Austurland hefur setið eftir varðandi alhliða uppbyggingu innan landshlutans, hvort sem um ræðir samgöngubætur eða aðra alhliða uppbyggingu. Sú staðreynd býr til sterka samstöðu og kraft til breytinga.

Úttekt á efnahagsumsvifum Austurlands, framkvæmd af greiningarfyrirtækinu Analytica, er mikilvægt gagn í þeirri vegferð og hefur hlotið verðskuldaða eftirtekt. Efnahagsgreining Austurlands sýnir glögglega að íbúar Austurlands, ríflega ellefu þúsund manns eða um 2,9% af heildarmannfjölda, standa undir um fjórðungi vöruútflutningstekna, um 240 milljörðum kr. á ári sem skilað er inn í sameiginlega sjóði ríkisins.

Aðrir landshlutar hafa nú tekið upp álíka aðferðafræði til að sýna fram á réttmæti aukins fjármagns til uppbyggingar á landsbyggðinni. Með þeim hætti sést glögglega hve gríðarlega mikilvæg verðmætasköpun landsbyggðarinnar er fyrir sameiginlega sjóði ríkisins. Vegna jöfnunarákvæðis býr landsbyggðin nú við það að þingmönnum þar verður fækkað árlega og það ferli er hafið. Norðvesturkjördæmi missti einn þingmann í nýafstöðnum Alþingiskosningum og Norðausturkjördæmi mun missa einn þingmann í næstu Alþingiskosningum.

Alþingiskosningar eru nýafstaðnar og mikilvægt að nýkjörnir Alþingismenn veki athygli á gögnum um verðmætasköpun svæðanna og vinni þannig af krafti fyrir sitt kjördæmi. Austurland hefur setið eftir varðandi alhliða uppbyggingu miðað við aðra landshluta. Það er mikið áhyggjuefni og tækifæri fyrir sitjandi Alþingismenn Norðausturkjördæmis að snúa þeirri þróun við.

Stjórn SSA og sveitarfélög á Austurlandi bókuðu harðlega gegn þeim landsbyggðarskatti sem settur var á með bílastæðagjöldum á Egilsstaðaflugvelli. Markmið aðgerðarinnar var sagt vera framkvæmt til að taka á þeim vanda sem hafði skapast með bílum sem lagt var til lengri tíma án endurgjalds. Stjórn SSA mun á nýju ári halda áfram baráttu með það að markmiði að hafa að lágmarki 4-5 gjaldfría daga á bílastæði Egilsstaðaflugvallar vegna allrar þeirrar þjónustu sem íbúar Austurlands þurfa að sækja suður.

Atvinnulífið á Austurlandi er kraftmikið og fyrirséð að það muni eflast enn frekar á næstu árum. Framleiðsla og gjaldeyristekjur frá Austurlandi munu aukast enn frekar sem kallar bæði á frekari íbúafjölgun ásamt betri innviðum sem hafa þann tilgang að gera svæðið að einu atvinnu- og þjónustusvæði. En Austfirðingar búa nú við þá staðreynd að þungaflutningar, sem eru lykilforsenda mikilvægrar verðmætasköpunar landshlutans, eiga erfitt um vik vegna þungatakmarkana víða í vegakerfinu. Mikilvægt er að þingmenn kjördæmisins geri sér fulla grein fyrir alvarleika málsins og beiti sér að fullu fyrir samgönguframkvæmdum sem tryggja örugga þungaflutninga innan Austurlands sem og á milli landshluta.

Sú mikilvæga innviðauppbygging er brýn og mun leysa úr læðingi enn frekari kraft í austfirsku atvinnulífi. Aðeins brotabrot af gríðarlegri verðmætasköpun sem fram fer á Austurlandi þarf til að fara í þá öflugu innviðauppbyggingu.

Umfangsmikil innviðauppbygging, aukning á öflugri alhliða fjarþjónustu í heimabyggð og að spyrna gegn auknum landsbyggðarskatti eru nú okkar stærstu sameiginlegu hagsmunamál. Mikilvægt er því að við stígum áfram fram af krafti, sameinuð, bæði stjórn SSA og íbúar Austurlands, landshlutanum og Íslandi öllu til heilla.

Með óskum um gleðilegt nýtt ár.