Vinnumenning hefur breyst á síðustu árum og sífellt fleiri vinna óháð staðsetningu. Austurland er kjörinn áfangastaður fyrir slíka starfsemi, enda býður landshlutinn upp á góðar aðstæður, fallegt umhverfi og sterka innviði. Á vefnum Óstaðbundin störf á Austurlandi má finna gagnagrunn með upplýsingum um húsnæði sem hentar þeim sem starfa óháð staðsetningu.
Fjöldi einstaklinga hefur þegar nýtt sér möguleikana sem Austurland býður. Hrafnkell Lárusson, sagnfræðingur, dvaldi í fræðimannsíbúðinni á Skriðuklaustri í þrjár vikur sumarið 2024 og vann þar að nýdoktorsrannsókn sinni í sagnfræði.
„Aðstaðan á Skriðuklaustri er til fyrirmyndar, umhverfið heillandi og örvandi fyrir hugann að vera á stað með svo ríkulega sögu. Dvölin var því afskaplega ánægjuleg og árangursrík fyrir mína rannsókn, og ég sneri aftur orkumeiri og einbeittari en ég fór,“ segir Hrafnkell.
Dæmi eins og þetta sýna hversu vel Austurland getur hentað fyrir fræðimenn, listamenn og aðra sem vilja nýta sér óstaðbundna vinnu og dvelja í hvetjandi umhverfi.
Austurland hefur upp á ýmislegt að bjóða fyrir þá sem vilja starfa hér tímabundið eða til lengri tíma. Innviðir landshlutans hafa styrkst á síðustu árum og hér er að finna fjölbreytt úrval af vinnuaðstöðu. Samkvæmt Sóknaráætlun Austurlands 2025-2029 er stefnt að því að styðja enn frekar við fjölbreytt atvinnulíf og efla innviði fyrir óstaðbundin störf.
Svæðisskipulag Austurlands til ársins 2044 tekur einnig mið af þessum breytingum og leggur áherslu á að byggja upp samfélag sem styður við nýjar atvinnugreinar, sveigjanlega vinnuhætti og sterka tengingu við náttúruna. Með því að nýta gagnagrunninn á Óstaðbundin störf á Austurlandi geta einstaklingar og fyrirtæki fundið húsnæði og aðstöðu sem hentar þeirra starfsemi. Hvort sem fólk vill vinna í rólegu umhverfi í dreifbýli eða í þéttbýlli kjarna með öflugri þjónustu þá eru lausnir til staðar sem henta flestum.
Það eru margir kostir við að dvelja og starfa á Austurlandi. Náttúran, samheldið samfélag og lífsgæði laða að fólk sem vill samræma vinnu og lífsstíl. Aðgerðir svæðisskipulagsins og sóknaráætlunar miða að því að styrkja þessa innviði frekar svo að landshlutinn verði enn aðgengilegri fyrir þá sem vilja vinna vinnuna sína óháð staðsetningu.
Ef þú hefur áhuga á að vinna óháð staðsetningu er Austurland frábær kostur – hvort sem um ræðir skammtímadvöl eða framtíðarsetu. Kynntu þér gagnagrunninn og láttu drauminn rætast!
Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn