Fulltrúar fræðslu- og símenntunarmiðstöðva víðs vegar að af landinu komu saman á árlegum fundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) þann 6. mars síðastliðinn. Fundurinn fór fram í húsnæði FA í Skipholtinu í Reykjavík, og var markmiðið að fara yfir stöðu og þróun framhaldsfræðslunnar – fimmtu stoðar menntakerfisins.
Á fundinum var rætt um hlutverk og ávinning framhaldsfræðslunnar, auk áskorana sem blasa við. Þar kom fram að mikil eftirspurn eftir þjónustu fræðslumiðstöðva, einkum vegna aukins fjölda innflytjenda, hefur leitt til þess að margar miðstöðvar eru að klára úthlutað fjármagn fyrir námsleiðir og raunfærnimat.
Sérstaka athygli vakti umfjöllun um fagbréf atvinnulífsins sem nú eru orðin fastur liður í hæfnisvottun starfsfólks og hafa reynst vel bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Austurbrú hefur tekið virkan þátt í þróun þessa verkefnis, m.a. með námsleiðinni Færni á vinnumarkaði sem haldin var haustið 2024 í samstarfi við FA, Fjölmennt og Vinnumálastofnun. Þar útskrifuðust sex einstaklingar með fagbréf á mismunandi fagsviðum.
Fundargestum var einnig kynnt myndbandið Artificial Intelligence and the Future Labour Market, sem fjallar um áhrif gervigreindar á íslenskan vinnumarkað og þá færniþróun sem fram undan er. Myndbandið má nálgast hér. Í kjölfarið sköpuðust líflegar umræður um þörf á markvissri fræðslu á þessu sviði. Á Austurlandi hefur Austurbrú þegar brugðist við með námskeiðum um gervigreind sem boðin hafa verið á Egilsstöðum, Djúpavogi og Vopnafirði: Gervigreind fyrir alla – námskeið hjá Austurbrú.
Fram kom að stefnt sé að því að flytja málaflokk framhaldsfræðslu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til mennta- og barnamálaráðuneytisins, sem vekur vonir meðal fræðslumiðstöðva um aukinn sýnileika og eflingu starfsins. Fundinum lauk með umræðum um þróun nýrra námsleiða, hæfniþróun starfsfólks og mikilvægi samstarfs við atvinnulíf og stjórnvöld með það að markmiði að veita fólki um allt land tækifæri til að efla færni sína og þátttöku á vinnumarkaði.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn