Austurbrú, SAF og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar buðu til opins fundar á Egilsstöðum, Valaskjálf, á mánudaginn síðastliðinn.
Á fundinum var sjónum beint að hæfni, gæðum og arðsemi í íslenskri ferðaþjónustu. Fundarstjóri var Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Skriðuklausturs. Gestafyrirlesari fundarins var Inga Hlín Pálsdóttir, ráðgjafi í ferðamálum. Framsögumenn auk hennar voru: Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdarstjóri Vök Baths, Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdarstjóri SAF, Ásdís Helga Bjarnadóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú , Auður Vala Gunnarsdóttir og Anna Margrét Jakobsdóttir Hjarðar hjá Blábjörg Resort og loks Margrét Wendt og Valdís A. Steingrímsdóttir fyrir hönd Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.
Því miður setti veður strik í reikninginn og féll fyrirhugað pallborð niður þar sem ófært var um Fagradal og pallborðsgestir búsettir víðsvegar um firðina. Mæting var hins vegar með besta móti en tæplega 30 manns sóttu viðburðinn. Honum var einnig streymt til þeirra sem ekki gátu mætt í Valaskjálf.
Sigfinnur Björnsson hjá Austurbrú var einn skipuleggjenda. Hann var ánægður með daginn og segir fræðslu af þessu tagi mikilvæga fyrir þróun ferðaþjónustunnar á Austurlandi. „Það var virkilega ánægjulegt að sjá hversu margir gátu setið fundinn,“ segir hann. „Bæði á staðnum en líka þau sem horfðu á streymið. Hæfni og gæði starfsfólks í ferðaþjónustu er lykilatriði í því að gera Austurland að eftirsóttum áfangastað. Við viljum að gestir okkar mæti vingjarnlegu og faglegu viðmóti á leið sinni um landshlutann og þess vegna er mikilvægt að starfsfólk fái viðunnandi fræðslu og geti þannig vaxið og dafnað í starfi.“
Sigfinnur segir það jafnframt hafa verið gagnlegt fyrir hann og aðra starfsmenn Austurbrúar að hlusta á framsögur fólks sem byggt hefur upp fyrirtæki á Austurlandi. Áhugavert hafi t.d. verið að heyra hvernig nýliðafræðslu er háttað hjá fyrirtækjum. Hann segir það líka hafa verið gagnlegt að heyra kynningu á þeim verkfærum sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur hannað fyrir stjórnendur fyrirtækja en Austurbrú kynnti sömuleiðis rafræn námskeið sem stofnunin hefur framleitt fyrir ferðaþjónustuna á Austurlandi.
Við hvetjum áhugasama að hlusta á upptöku af fundinum en glærurnar má finna hér.
Ásdís Helga Bjarnadóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn