Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur við Háskólann á Akureyri, setti fram skýra framtíðarsýn um Austurland sem vaxtarsvæði þjóðarinnar. Hann lagði áherslu á að nýta veðursæld, landrými og sterka byggð á stöðum eins og Egilsstöðum og Fellabæ. Með markvissri húsnæðisuppbyggingu, bættum samgöngum og öflugum innviðum mætti þróa Fljótsdalshérað í átt að smáborg á borð við Akureyri – og þannig styrkja byggð um allan landshlutann.

Vífill Karlsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, fjallaði um tengsl íbúafjölda, þjónustu og stærðarhagkvæmni. Hann sýndi fram á að í sumum málaflokkum – eins og fræðslu, menningu og umhverfismálum – sé kostnaður hagkvæmastur þegar íbúar eru á bilinu 10–30 þúsund. Fámenn samfélög hafi þó sérstöðu og aðdráttarafl fyrir fólk sem sækist eftir nálægð við náttúru og rólegt líf, en fjölmennari samfélög höfði meira til barnafjölskyldna.

Þrír ungir Austfirðingar tóku einnig til máls og lýstu sýn sinni á það sem þurfi að vera til staðar til að ungt fólk vilji búa á Austurlandi. Lilja Sif Magnúsdóttir lagði áherslu á gott húsnæði, nálægð við náttúruna og betri móttöku fyrir fólk að flytja til svæðisins. Katla Torfadóttir talaði um mikilvægi félagslífs, geðheilbrigðisþjónustu og góðu aðgengi að háskólanámi.

Tinna Rut Hjartardóttir, nemandi í Verkmenntaskóla Austurlands, sagði m.a. í kraftmiklu ávarpi: „Við viljum búa hér. Við viljum koma aftur heim. En þá þarf samfélagið að hlusta á okkur – og skapa skilyrði sem gera drauma okkar mögulega.“

Austurbrú þakkar öllum sem mættu á málþingið og sérstakar þakkir fá þau sem tóku þátt, stigu í pontu og deildu hugmyndum sínum og skoðunum með gestum.