Markaðsstofa Austurlands heimsótti nýverið Djúpavog í einstaklega fallegu veðri. Markmiðið með heimsókninni var að funda með samstarfsaðilum, kynnast starfsemi þeirra, ræða tækifæri og áskoranir og upplifa þann menningarauð og náttúrufegurð sem svæðið hefur upp á að bjóða.
Ferðin hófst í Fossárdal þar sem farið var yfir uppbyggingu síðustu missera og rætt við eigendur staðarins. Starfsemin er þróttmikil, framtíðarsýnin skýr og svæðið býður upp á fjölbreytta möguleika í ferðaþjónustu.
Því næst var haldinn fundur með samstarfsaðilum í Löngubúð. Þar mættu fulltrúar frá Löngubúð, Adventura, Voxey Trips og Arctic Fun. Á fundinum var m.a. rætt um helstu áskoranir í markaðssetningu og hvernig nýta megi betur þá sérstöðu sem Djúpivogur hefur fram að færa þegar kemur að náttúru, menningu og/eða sögu.
Í framhaldinu var farið í afar „menningarlega“ hjólaferð um Djúpavog í boði Adventura og Arctic Fun. Meðal viðkomustaða voru steinasafn Auðuns, Eggin í Gleðivík og tónlistarflutningur frá Berglindi í gamla lýsistanknum við höfnina.
Að auki gafst einstakt tækifæri til að sjá bæði hreindýr og hval. Það var einstaklega minnisstæð náttúruupplifun sem undirstrikar rækilega hversu fjölbreytt dýralífið er á þessu svæði.
Ferðinni lauk með heimsókn á Bragðavelli þar sem gestir fengu að kynntast einstaklega hlýlegri og persónulegri ferðaþjónustu. Þar var boðið upp á notalega gistingu og heimagerðan mat í stórbrotnu umhverfi.
Markaðsstofan þakkar öllum samstarfsaðilum á Djúpavogi kærlega fyrir hlýjar móttökur og ógleymanlega heimsókn. Framundan eru frekari heimsóknir og samstarf við aðila víða um Austurland en þannig vill Markaðsstofan styðja við öfluga, fjölbreytta og skapandi markaðssetningu landshlutans.
Alexandra Tómasdóttir
Lilja Sigríður Jónsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn