Í síðustu viku var haldinn tveggja daga vinnufundur á Austurlandi hjá starfsmönnum Markaðsstofa landshlutanna (MAS). Að þessu sinni var hann skipulagður af Markaðsstofu Austurlands (Áfangastaðastofu Austurlands) sem er hluti af starfsemi Austurbrúar.
Samstarf markaðsstofanna hefur aukist mikið á síðastliðnum árum og kemur hópurinn saman einu sinni til tvisvar á ári til að fara yfir sameiginleg málefni en markaðsstofurnar eru hver í sínum landshluta. Þær eru samvinnuvettvangur ríkis, sveitarfélaga, ferðaþjónustufyrirtækja og annara hagsmunaaðila um ferðamál og huga að þróun ferðamála landshlutanna til framtíðar.
Markaðsstofur landshlutanna eru sjö talsins; á Austurlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Vesturlandi, Reykjanesi, Höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Hlutverk þeirra að samræma markaðs- og kynningarmál í ferðaþjónustu, sjá um útgáfumál, móttöku blaðamanna ásamt því að sinna beinni markaðssetningu og vinnu við vöruþróun í ferðaþjónustu.
Hópurinn kynnti sér afþreyingu á Austurlandi og var byrjað á heimsókn í Sláturhúsið – menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, þar sem Ragnhildur Ásvaldsdóttir, forstöðumaður Sláturhússins, kynnti hópinn fyrir sögu og tilgang hússins áður en minjasýning Kjarvals á Austurlandi og ljósmyndasýning Stuarts Richardson var skoðuð. Næst var haldið á Borgarfjörð til að skoða uppbygginguna sem hefur átt sér stað þar og var meðal annars Hafnarhúsið við Hafnarhólma skoðað og Blábjörg. Á leiðinni til baka á Egilsstaði heimsótti hópurinn Hreindýragarðinn þar sem Björn Magnússon, hreindýrabóndi á Vínlandi, sagði frá því hvernig garðurinn varð til. Dagurinn endaði svo með heimsókn í Vök.
Daginn eftir fundaði hópurinn um sameiginleg verkefni og málefni. Það sem bar hæst á fundinum var umræða um áfangastaðaáætlun og sameiginlega hugtakanotkun. Auk þess voru mál tengd skemmtiferðaskipum rædd og staðan á svæðunum þegar kemur að þeim. Þá fékk hópurinn kynningu frá fulltrúum Ferðamálastofu á nýju og uppfærðu mælaborði ferðaþjónustunnar sem ætlað er að auðvelda aðgengi að gögnum um ferðaþjónustu á Íslandi. Einnig var þar rætt um mikilvægi vinnu að gagnagrunni Ferðamálastofu en Markaðsstofur landshlutanna eru lykilsamstarfsaðili í því verkefni.
Hópurinn vinnur nú að skipulagningu á Mannamótum markaðsstofa landshlutanna sem haldið verður í Kórnum í Kópavogi, fimmtudaginn 16. janúar. Mannamót markaðsstofanna er árleg ferðakaupstefna og kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni þar sem landsbyggðarfyrirtæki fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn