Námsleiðin Beint frá býli hefur verið kennd í vetur í góðu samstarfi Austurbrúar og Hallormsstaðaskóla. Námsleiðin var unnin samkvæmt námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og aðlöguð að austfirsku umhverfi. Fyrr í vikunni voru ellefu nemendur útskrifaðir.
Töluverðan tíma tók að móta námsleiðina og koma henni af stað en í október 2020 var haldinn kynningarfundur og í framhaldinu tók við bóklegt nám á haustönninni þar sem nemendur fóru í hugmyndavinnu, lærðu að gera markaðsáætlanir, verk- og kostnaðaráætlanir og margt fleira. Þeir fengu fræðslu um matvælamarkaðinn á Íslandi, kynningu á Samtökum smáframleiðenda matvæla, kynningu frá MAST og fleira. Þá fengu nemendur fræðslu um helstu fjármögnunarleiðir og svo var unnið í gæðahandbók.
Á vorönninni var áhersla lögð á verklegt nám í Hallormsstaðaskóla auk þess sem nemendur fengu kynningu á hreinlæti og örverufræði, vélum og tækjum til matvælaframleiðslu, næringargildi hráefna, uppskriftum, aukaefnum og merkingum. Mikil áhersla var lögð á að miða seinni hluta námskeiðsins við þarfir hvers þátttakanda og höfðu nemendur aðgang að vottuðu tilraunaeldhúsi í Hallormsstaðaskóla auk þess sem kennarar námsleiðarinnar, þau Bryndís Fiona Ford, skólameistari og Sigurður Eyberg Jóhannesson, fagstjóri, stýrðu námsleiðinni af miklum myndarskap og voru nemendum til halds og trausts allan tímann.
Það voru fjórtán nemendur sem hófu þessa vegferð, þrettán kláruðu bóklega hlutann fyrir áramót og þriðjudaginn 9. mars útskrifuðust ellefu nemendur með 160 klst. nám úr „Matarsmiðjunni Beint frá býli.“ Nemendur komu víða að: Frá Djúpavogi, Stöðvarfirði, Héraði, Seyðisfirði og Borgarfirði eystri. Mikil gleði var við útskriftina en þá kynntu útskriftarnemar lokaverkefnin sín. Margt spennandi og nýstárlegt bar á góma og má m.a. minnast á geitur, rauðan rabbarbara, þorsk, ull, ís, jerky, hljóðvist, fjallagrös, ferðamenn, koníak, pylsur, fiskisósa, ketó og margt annað skemmtilegt. Það er greinilega mikill hugur í nemendum sem flestir hyggjast sækja um styrk í Matvælasjóð fyrir verkefnin sín.
Það verður gaman að fylgjast áfram með þróun matvælaframleiðslu á Austurlandi og þeirri miklu grósku sem þar er. Austurbrú vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til starfsfólks Hallormsstaðaskóla auk þess sem útskriftarnemendum eru sendar hjartanlegar hamingjuóskir með áfangann.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn