Á nýliðnu skólaári sá Austurbrú um framkvæmd 854 prófa fyrir 418 nemendur. Þetta er mesti fjöldi nemenda sem hefur skráð sig til prófs hjá Austurbrú frá því byrjað var að halda utan um tölfræðigögn árið 2013. Þetta jafngildir 5% aukningu í prófafjölda og heilum 36,2% aukningu í fjölda nemenda frá fyrra ári.

Flest próf voru tekin á Egilsstöðum og Reyðarfirði og háskólanemendur voru fjölmennasti hópurinn. Háskólinn á Akureyri var stærsti samstarfsskólinn með tæplega helming allra prófa. Prófaþjónusta Austurbrúar nær þó langt út fyrir háskólanám; hún spannar einnig ríkisborgarapróf, framhaldsskóla og sérhæfð námskeið eins og vinnuvéla- og veiðikortapróf.

Prófaumsýsla er einn af hornsteinum starfsemi Austurbrúar og krefst nákvæmrar framkvæmdar samkvæmt ströngu verklagi. Verkefnin fela í sér móttöku, meðhöndlun og skönnun prófa, sendingu prófúrlausna og örugga meðferð persónugreinanlegra gagna. Austurbrú rekur starfsstöðvar á sjö stöðum á Austurlandi: á Vopnafirði, Egilsstöðum, Borgarfirði eystri, Seyðisfirði, Reyðarfirði, í Neskaupstað og á Djúpavogi.