Niðurstöður könnunar meðal umsækjenda í Uppbyggingarsjóð Austurlands sýna að sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki í nýsköpun, atvinnuuppbyggingu og menningarstarfi á Austurlandi. Yfir 90% svarenda telja sjóðinn skipta miklu máli og tæplega helmingur þeirra segir að verkefnið hefði ekki orðið að veruleika án styrks úr sjóðnum.
Könnunin sýnir með óyggjandi hætti að Uppbyggingarsjóðurinn hefur raunveruleg áhrif á Austurlandi. Styrkir hafa leitt til áframhaldandi verkefna, frekari fjármögnunar og nýrra starfa. Í henni kemur líka fram að umsækjendur finna helst galla á umsóknarferlinu og óska eftir einfaldara umsóknarferli og minna skrifræði. Við því hefur þegar verið brugðist og stjórn SSA hefur samþykkt nýjar úthlutunarreglur sem byggja m.a. á niðurstöðum könnunarinnar og svo áherslum nýrrar Sóknaráætlunar Austurlands 2025-2029.
Í haust verður tekin í notkun ný umsóknargátt þar sem lögð verður áhersla á einfaldleika og notendavæna hönnun. Þá boða nýjar úthlutunarreglur þá breytingu að hækkun verður á hlutfalli styrks sem greiddur er út við upphaf verkefnis og ekki verður lengur gerð krafa um framvinduskýrslu.
Ráðgjöf frá Austurbrú reyndist lykilatriði fyrir árangur umsækjenda sem er ánægjuleg niðurstaða fyrir starfsmenn Austurbrúar. Greinilegt samband er á milli þess að umsækjendur, sem leita sér ráðgjafar hjá verkefnastjóra sjóðsins og atvinnuþróunarsviði Austurbrúar, ná betri árangri í styrkumsóknum.
Þá sýnir reynsla síðustu ára að aðsókn í Uppbyggingarsjóðinn er mikil, fer vaxandi og samkeppni um styrki hörð. Að mati Austurbrúar þarf sjóðurinn aukið fjármagn til að mæta þeirri grósku sem finna má á Austurlandi, enda hefur úthlutunarupphæðin ekki hækkað í tíu ár. Uppbyggingarsjóðurinn hefur sannað gildi sitt og því er löngu tímabært að stækka rammann og efla áhrifin með auknu fjármagni – til hagsbóta fyrir fjölbreytt og metnaðarfull verkefni sem styrkja samkeppnishæfni landshlutans til framtíðar.
Næsti umsóknargluggi opnar í september og verður auglýstur hér á síðunni sem og á héraðsfréttamiðlum.
Hjá Austurbrú starfa ráðgjafar á sviði atvinnuþróunar og hafa frumkvöðlar á Austurlandi aðgang að þeim sér að kostnaðarlausu. Þessi ráðgjöf getur snúið að stofnun fyrirtækja, þróun og útvíkkun á starfsemi, mótun hugmynda og fjármögnun svo eitthvað sé nefnt. Ráðgjafar okkar eru góðir hlustendur og hafa bæði þá reynslu og þá þekkingu til að veita góð ráð!
Atvinnuþróun hjá AusturbrúFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn