Raunfærnimat er fyrir einstaklinga sem hafa gengið í gegnum nám í „skóla lífsins“ en vantar viðurkenningarskjal upp á það. Karlotta Kristín Árnadóttir býr á Egilsstöðum og fann sig í kennslu í leikskóla en hafði ekki tilskilda menntun. Hún fór í raunfærnimat hjá Austurbrú sem fleytti henni inn í fagháskólanám í leikskólafræði sem hún stundar af kappi í dag. Við ræddum við Karlottu og Hrönn Grímsdóttur, náms- og starfsráðgjafa hjá Austurbrú, sem fræddi okkur um raunfærnimat hjá Austurbrú.
Nám fer ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur við alls konar aðstæður og í alls konar samhengi. Við náum okkur í reynslu, færni og þekkingu með ýmsum hætti og raunfærnimat kallast það þegar úttekt er gerð á þessari þekkingu, og hún viðurkennd, án tillits til þess hvernig eða hvar hennar var aflað.
„Ég hafði vitað af raunfærnimatinu í Austurbrú í nokkur ár,“ segir Karlotta Kristín. „Vinkona mín fór fyrir nokkrum árum og hvatti mig til að skoða þetta. Þegar ég ákvað að fara í háskólanám kom rétta tækifærið til að prófa þetta. Ferlið var alls ekki flókið, mjög skýrt raunar, og starfsfólkið í Austurbrú dásamlegt! Ég viðurkenni að ég var stressuð fyrir viðtölin en það lagaðist nú fljótt þegar þau byrjaðu og starfsmaður Austurbrúar var með mér allan tímann.“
Karlotta mælir með að fólk, sem ekki er með tilskilda menntun og búið að finna sér rétta starfsvettvanginn, kynni sér raunfærnimat hjá Austurbrú: „Raunfærnimatið skilaði því að ég komst inni Háskólann á Akureyri og í Háskóla Íslands í fagháskólanám í leikskólafræðum. Ég fékk allt sem hægt var að fá metið,“ segir hún.
Sem fyrr segir snýst raunfærnimat um að meta þekkingu sem fólk hefur aflað sér utan formlega skólakerfisins, í vinnu eða einkalífi. Raunfærnimat gefur einstaklingum tækifæri til að hefja nám þar sem það er statt í þekkingu en ekki þar sem formlegri skólagöngu lauk. Það er Hrönn Grímsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, sem heldur utan um raunfærnimatið hjá Austurbrú og fengum að forvitnast frekar um úrræðið hjá henni.
Hvernig kemst maður í raunfærnimat?
„Inntökuskilyrði í raunfærnimat eru einföld,“ svarar Hrönn, „að vera orðin 23 ára og hafa þriggja ára starfsreynslu á því sviði sem raunfærnimatið er.“
Er hægt að fara í raunfærnimat í hverju sem er?
„Það eru tvær meginleiðir í raunfærnimati. Raunfærnimat á móti námskrám og þá einkum í framhaldsskóla og raunfærnimat á móti hæfniskröfum starfs og fer það þá fram á vinnustaðnum. Einnig er til raunfærnimat í almennri starfshæfni þar sem verið er að meta grunnhæfni sem gagnast óháð stund og stað og er eftirsóknarverð á vinnumarkaði. Ef við tölum eingöngu um raunfærnimat sem gefur einingar þá fer það fram á móti ákveðinni námskrá í framhaldsskóla.“
Hvaða raunfærnimat verður í boði hjá Austurbrú í ár?
„Það raunfærnimat sem Austurbrú býður uppá í ár 2024 er á móti námskrá í félagsliða, stuðningsfulltrúa, leikskólaliða, sjúkraliða og fisktækni. Auk þess erum við í samstarfi við Iðuna og þar fer fram raunfærnimat í öllum iðngreinum utan rafiðngreinum en Rafmennt sér um það. Við erum líka í samstarfi við VISKU í Vestmannaeyjum þar sem raunfærnimat í skipstjórn fer fram. Auk þess erum við með raunfærnimat í almennri starfshæfni sem við vinnum í samstarfi við Starfsendurhæfingu Austurlands og raunfærnimat á móti starfi í íþróttahúsum og sundlaugum.
Hveturðu þá sem leita til þín í námshugleiðingum að skoða þennan möguleika?
„Hiklaust. Þegar einstaklingur kemur til mín og langar að hefja nám en hefur ekki lokið stúdentsprófi eða iðnprófi skoðum við strax hvort hann sé gjaldgengur í raunfærnimat. Það gefur einingar sem geta nýst til að ljúka viðkomandi námsbraut en þær geta jafnframt nýst upp í stúdentspróf eða til að auka líkurnar á að fólk komist inn í háskólanám á undanþágu eða aðrar námsleiðir sem krefjast lágmarks fjölda eininga.“
Austurbrú hefur gert kannanir á reynslu þátttakenda í raunfærnimati og reynslan sýnir að yfirgnæfandi meirihluti er ánægður með úrræðið. Fólki finnst viðtölin ganga vel, að ferlið sé í raun mun léttara en reiknað sé með og að það gefi rétta mynd af styrkleikum fólks. Fólk treystir sér til að mæla með raunfærnimati hjá Austurbrú og það sem ef til vill er mikilvægast: mikill meirihluti þátttakenda reiknar með að fara í frekara nám.
„Fólk öðlast nýja trú á sig í námi,“ segir Hrönn. „Raunfærnimatið er ferli sem flestir þátttakendur eru virkilega ánægðir með. Fólk er almennt mjög sátt við matsviðtölin sjálf, niðurstöðuna, þjónustuna og ferlið í heild. Allt er gert til að raunfærnimatið sé sem þægilegast fyrir þátttakandann. Matssamtölin fara fram í Teams þannig að fólk sleppur við ferðalög, við styðjumst við túlka sé þess þörf og ferlið er ókeypis fyrir þau sem ekki hafa lokið stúdents- eða iðnprófi,“ segir Hrönn og bætir við að lokum:
„Þetta er valdeflandi ferli jafnvel þótt viðkomandi velji að fara ekki í nám í kjölfarið. Það kemur flestu fólki á óvart hversu mikið það veit og kann sem eykur sjálfstraust bæði í vinnu og í námi.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn