raunfærnimat

Er raunfærnimat fyrir þig?

Austurbrú hefur gert kannanir á reynslu þátttakenda í raunfærnimati og reynslan sýnir að yfirgnæfandi meirihluti er ánægður með úrræðið. Ekki hika við að hafa samband við okkur ef þú heldur að raunfærnimat gagnist þér!

Nám fer ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur við alls konar aðstæður og í alls konar samhengi. Við náum okkur í reynslu, færni og þekkingu með ýmsum hætti og raunfærnimat kallast það þegar úttekt er gerð á þessari þekkingu, og hún viðurkennd, án tillits til þess hvernig eða hvar hennar var aflað.

Er hægt að fara í raunfærnimat í hverju sem er?

„Það eru tvær meginleiðir í raunfærnimati. Raunfærnimat á móti námskrám og þá einkum í framhaldsskóla og raunfærnimat á móti hæfniskröfum starfs og fer það þá fram á vinnustaðnum. Einnig er til raunfærnimat í almennri starfshæfni þar sem verið er að meta grunnhæfni sem gagnast óháð stund og stað og er eftirsóknarverð á vinnumarkaði. Ef við tölum eingöngu um raunfærnimat sem gefur einingar þá fer það fram á móti ákveðinni námskrá í framhaldsskóla.“

Hvaða raunfærnimat verður í boði hjá Austurbrú í ár?

„Það raunfærnimat sem Austurbrú býður uppá í ár 2024 er á móti námskrá í félagsliða, stuðningsfulltrúa, leikskólaliða, sjúkraliða og fisktækni. Auk þess erum við í samstarfi við Iðuna og þar fer fram raunfærnimat í öllum iðngreinum utan rafiðngreinum en Rafmennt sér um það. Við erum líka í samstarfi við VISKU í Vestmannaeyjum þar sem raunfærnimat í skipstjórn fer fram. Auk þess erum við með raunfærnimat í almennri starfshæfni sem við vinnum í samstarfi við Starfsendurhæfingu Austurlands og raunfærnimat á móti starfi í íþróttahúsum og sundlaugum.

Hveturðu þá sem leita til þín í námshugleiðingum að skoða þennan möguleika?

„Hiklaust. Þegar einstaklingur kemur til mín og langar að hefja nám en hefur ekki lokið stúdentsprófi eða iðnprófi skoðum við strax hvort hann sé gjaldgengur í raunfærnimat. Það gefur einingar sem geta nýst til að ljúka viðkomandi námsbraut en þær geta jafnframt nýst upp í stúdentspróf eða til að auka líkurnar á að fólk komist inn í háskólanám á undanþágu eða aðrar námsleiðir sem krefjast lágmarks fjölda eininga.“

Eykur sjálfstraust

Austurbrú hefur gert kannanir á reynslu þátttakenda í raunfærnimati og reynslan sýnir að yfirgnæfandi meirihluti er ánægður með úrræðið. Fólki finnst viðtölin ganga vel, að ferlið sé í raun mun léttara en reiknað sé með og að það gefi rétta mynd af styrkleikum fólks. Fólk treystir sér til að mæla með raunfærnimati hjá Austurbrú og það sem ef til vill er mikilvægast: mikill meirihluti þátttakenda reiknar með að fara í frekara nám.

Nánari upplýsingar


Hrönn Grímsdóttir

470 3833 // [email protected]