Skipulagsskrá Austurbrúar
1. gr. Heiti og heimili
Félagið er sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur og heitir Austurbrú ses. Heimili þess og varnarþing er á Fljótsdalshéraði.
2. gr. Tilgangur
Tilgangur Austurbrúar ses. er að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Austurlandi og veita samræmda og þverfaglega þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu.
3. gr. Markmið
Markmið Austurbrúar ses. er að efla atvinnulíf á Austurlandi, hækka menntunarstig, stuðla að velferð íbúa og styrkja landshlutann sem búsetukost og áfangastað ferðamanna. Markmiði sínu hyggst Austurbrú ses. ná með því að skapa þverfaglegan samstarfsvettvang og vinna að:
• Nýsköpun, þróun og eflingu atvinnulífs og samfélags
• Öflugri símenntun, starfsþróun og starfsfræðslu
• Skilvirkri upplýsingastarfsemi og heildstæðri markaðssetningu
• Fjölbreyttri uppbyggingu háskólanáms og rannsókna
• Fjölþættri starfsemi á sviði menningar, lista og skapandi greina
4. gr. Form og aðild
Austurbrú ses. er stofnuð á grunni Þekkingarnets Austurlands (ÞNA), Þróunarfélags Austurlands (ÞFA), Markaðsstofu Austurlands (MA) og Menningarráðs Austurlands. Við stofnun tekur Austurbrú ses. yfir starfsemi, eignir og skuldbindingar þessara stofnana og félaga sem og daglegan rekstur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA samkvæmt sérstökum þjónustusamningi. Jafnframt tekur stofnunin að sér önnur þau verkefni sem samræmast tilgangi hennar og stefnu og stjórn stofnunarinnar kann að ákveða. Stofnendur sjálfseignarstofnunarinnar eru:
Múlaþing, kt. 660220-1350
Fjarðabyggð, kt. 470698-2099
Fljótsdalshreppur, kt. 550169-5339
Vopnafjarðarhreppur, kt. 710269-5569
Hallormsstaðaskóli, kt. 640169-0959
Háskóli Íslands, kt. 600169-2039
Háskólinn á Akureyri, kt. 520687-1229
Háskólinn á Bifröst, kt. 550269-0239
Háskólinn í Reykjavík, kt. 510105-4190
Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, kt. 500169-4359
Landbúnaðarháskóli Íslands, kt. 411204-3590
Listaháskóli Íslands, kt. 421098-4099
Menntaskólinn á Egilsstöðum, kt. 610676-0579
Náttúrustofa Austurlands, kt. 461094-2529
Skógræktin, kt. 590269-3449
Verkmenntaskóli Austurlands, kt. 520286-1369
AFL – Starfsgreinafélag Austurlands, kt. 560101-3090
Bandalag íslenskra listamanna, kt. 440169-2959
Byggðastofnun, kt. 450679-0389
Ferðamálasamtök Austurlands, kt. 711085-0849
Ferðamálastofa, kt. 530169-4059
Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, kt. 580687-1729
Heilbrigðisstofnun Austurlands, kt. 610199-2839
Íslandsstofa, kt. 690986-1599
Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919
Útvegsmannafélag Austurlands, kt. 450390-2599
Stofnframlag sjálfseignarstofnunarinnar er kr. 1.600.000 og greiðir hver stofnaðili kr. 50.000.
Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar. Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnendum hennar.
5. gr. Aðild
Aðild að Austurbrú ses. er með tvennum hætti:
1) Stofnaðilar geta orðið samtök hagsmunaaðila og mennta-, rannsókna- og fagstofnanir sem tengjast starfssviðum stofnunarinnar. Ný aðild er háð samþykki 2/3 hluta þeirra stofnaðila sem eru fyrir á stofnaðilaskrá og skal nýr aðili greiða stofnframlag sbr. 4. gr. og hafa eftir það sama rétt og stofnaðilar.
2) Hagsmunaaðilar geta orðið þeir lögaðilar sem hafa starfsstöð eða lögheimili á Austurlandi og gera þjónustu- eða samstarfssamninga við stofnunina, gegn föstu árgjaldi er stjórn ákveður. Hagsmunaaðilar hafa málfrelsi og tillögurétt á ársfundum. Halda skal sérstaka skrá yfir stofnaðila og hagsmunaaðila.
6. gr. Fulltrúaráð
Fulltrúaráð Austurbrúar ses. er skipað fulltrúum þeirra sem aðild eiga að stofnuninni. Stofnaðilaskrá hverju sinni jafngildir kjörskrá stofnaðila í fulltrúaráði og fer hver lögaðili með eitt atkvæði á fundum þess og ársfundum stofnunarinnar.
Komi til sameiningar tveggja eða fleiri stofnaðila, leiðir sameining til þess að þeir fara eftir það með eitt atkvæði. Komi til skiptingar eins stofnaðila í tvo eða fleiri lögaðila leiðir slíkt eingöngu til þess að atkvæðum fjölgi ef sá aðili hefur áður orðið til við sameiningu tveggja eða fleiri stofnaðila.
Skráðir hagsmunaaðilar hafa rétt til að skipa 5 fulltrúa í fulltrúaráð með fullan atkvæðisrétt sbr. 11. grein.
Hlutverk fulltrúaráðs er að vera tengiliður milli aðila og stjórnar eftir því sem við á, fylgjast með rekstri stofnunarinnar og hafa eftirlit með hvernig stjórn og framkvæmdastjóri ráða málum hennar, þar með töldum fjármálum, og setja stofnuninni nauðsynlegar starfsreglur.
Stjórnarmenn og starfsmenn stofnunarinnar mega ekki skipa meirihluta fulltrúaráðs.
Fulltrúar í fulltrúaráði þurfa að skila inn skriflegu umboði á boðuðum fundum þess.
Stjórn getur kallað saman fulltrúaráðsfund þegar á þarf að halda og þarf þriðjung aðila að fulltrúaráði til að knýja á um að fulltrúaráðsfundur sé haldinn.
Formaður stjórnar Austurbrúar ses. boðar fundi fulltrúaráðs. Aðra fundi fulltrúaráðs en ársfundi skal boða með að lágmarki viku fyrirvara.
7. gr. Ársfundur
Ársfundur Austurbrúar ses. skal haldinn á tímabilinu mars til maí ár hvert og er opinn öllum. Ársfundinn skal boða skriflega með tölvupósti eða bréfi til stofn- og hagsmunaaðila með að lágmarki 14 daga fyrirvara og með auglýsingum í fjölmiðlum.
Fulltrúar í fulltrúaráði fara með atkvæðisrétt á ársfundi en aðrir fundarmenn hafa málfrelsi og tillögurétt. Á ársfundi gerir stjórn grein fyrir starfi stofnunarinnar og leggur fram ársreikninga til samþykktar.
Endurskoðaðir reikningar Austurbrúar ses. skulu liggja frammi til kynningar minnst viku fyrir ársfund á skrifstofum Austurbrúar ses.
Dagskrá ársfundar skal vera sem hér segir:
1) Skýrsla stjórnar
2) Afgreiðsla ársreikninga
3) Fjárhags- og starfsáætlun kynnt
4) Breytingar á skipulagsskrá (ef við á)
5) Staðfesting á breytingum á innri reglum Austurbrúar ses. (ef við á)
6) Kosningar:
A. Kjör endurskoðenda
B. Kjör starfsháttanefndar
C. Kjör siðanefndar
7) Ákvörðun um þóknun stjórnar og fagráðs
8) Önnur mál
Heimilt er að haga dagskrá ársfundar með öðrum hætti en að ofan greinir enda sé það tilgreint í auglýstri dagskrá. Skylt er þó að taka alla ofangreinda liði fyrir á ársfundi.
8. gr. Stjórn
Stjórn Austurbrúar ses. skal skipuð sjö manns. Skulu fimm þeirra koma af vettvangi sveitarstjórnarmála en tveir af vettvangi atvinnulífs, menntunar og menningar. Stjórnarmenn af vettvangi sveitarstjórnarmála skulu vera þeir sömu og skipa stjórn SSA og eru því kosnir á aðalfundi SSA. Stjórnarmenn af vettvangi atvinnulífs, menntunar og menningar eru formaður og varaformaður fagráðs stofnunarinnar og kosnir á fundi hagsmunaaðila og annarra stofnaðila en sveitarfélaga. Aðrir fagráðsmenn taka stjórnarsæti í forföllum formanns og/eða varaformanns. Varamenn í stjórn SSA taka sæti í forföllum aðalmanna af vettvangi sveitarstjórnarmála. Áheyrnarfulltrúi í stjórn SSA á einnig rétt á að sitja sem áheyrnarfulltrúi í stjórn Austurbrúar ses.
Formaður SSA er jafnframt stjórnarformaður Austurbrúar ses. og varaformaður SSA gegnir formennsku í forföllum hans. Stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum.
Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar skrifar prókúru og getur veitt framkvæmdastjóra eða öðrum umboð sitt til prókúru. Stjórn áritar ársreikninga ásamt framkvæmdastjóra áður en þeir eru lagðir fyrir ársfund.
Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerðabók um það sem gerist á stjórnarfundum.
Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfunda.
Sama rétt á framkvæmdastjóri. Halda skal stjórnarfundi a.m.k. fjórum sinnum á ári.
9. gr. Starfsháttanefnd
Starfsháttanefnd Austurbrúar ses. skal skipuð þremur fulltrúum sem kosnir eru á ársfundi. Hlutverk starfsháttanefndar er að vera umsagnaraðili um innri reglur Austurbrúar ses. og vinna tillögur til ársfundar um breytingar á skipulagsskrá, kjör í starfsháttanefnd og siðanefnd, ásamt því að gera tillögu um þóknun stjórnar og fagráðs. Ársfundur og/eða fulltrúaráð geta falið starfsháttanefnd önnur verkefni.
Fulltrúar í starfsháttanefnd geta ekki jafnframt átt sæti í stjórn, fagráði eða siðanefnd Austurbrúar ses.
Starfsháttanefnd velur sér formann sem boðar til funda sem halda skal minnst tvisvar á ári. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála á fundum nefndarinnar.
10. gr. Fagráð
Fagráð Austurbrúar ses. skal kosið á fundi hagsmunaaðila og annarra stofnaðila en sveitarfélaga (sjá 11. gr). Í fagráði sitja fimm manns. Kosning þeirra fer þannig fram: Formaður skal kosinn fyrst og síðan varaformaður. Að því loknu skulu kosnir þrír meðstjórnendur og ræður atkvæðamagn röð þeirra til varamannssetu í stjórn Austurbrúar ses.
Starfsmenn Austurbrúar ses. geta ekki setið í fagráði. Afl atkvæða ræður málum á fundum ráðsins.
Fagráð skal endurspegla þá málaflokka sem Austurbrú ses. vinnur að og koma meðal annars fram í 3. gr. skipulagsskrárinnar.
Hlutverk fagráðs er að vera stjórn til ráðgjafar við mótun verkefna og þróun á starfsemi stofnunarinnar.
Framkvæmdastjóri situr fundi fagráðs nema ráðið ákveði annað.
Tillögur fagráðs skulu koma til umfjöllunar stjórnar Austurbrúar ses. Stjórn Austurbrúar ses. getur jafnframt vísað málum til fagráðs.
Fagráð skal funda að minnsta kosti tvisvar á ári og halda fundargerðir. Stjórn og fagráð skulu funda saman að minnsta kosti einu sinni á ári.
11. gr. Fundur hagsmunaaðila og stofnaðila annarra en sveitarfélaga
Framkvæmdastjóri skal boða fund skráðra hagsmunaaðila og stofnaðila annarra en sveitarfélaga einu sinni á ári hið minnsta. Fundinn skal halda í tengslum við ársfund Austurbrúar ses. en áður en hann fer fram.
Á dagskrá fundarins skal meðal annars vera:
• Kynning á verkefnum síðasta árs
• Fjárhags- og starfsáætlun yfirstandandi starfsárs
• Kjör fagráðs
• Kjör fulltrúa í fulltrúaráð
12. gr. Innri reglur
Starfsháttanefnd veitir umsögn um innri reglur Austurbrúar ses. Starfsháttanefnd skal tryggja að endurskoðun fari fram á ofangreindum reglum árlega og leggja fram til staðfestingar á ársfundi.
13. gr. Siðanefnd
Ársfundur skal kjósa þriggja manna siðanefnd sem skal fjalla um meint brot á siðareglum Austurbrúar ses. skv. nánari reglum um málsmeðferð er siðareglur kveða á um.
Siðanefnd Austurbrúar ses. úrskurðar, skv. siðareglum, um það hvort meint brot eða athæfi starfsmanns eða stjórnarmanns stofnunarinnar teljist brot og þá hversu alvarlegt, skv. nánari ákvæðum er siðareglur segja til um. Um frekari viðbrögð vegna brota á siðareglum Austurbrúar ses. skal fjallað í siðareglunum sjálfum svo og starfsreglum stjórnar. Fulltrúar í siðanefnd skulu ekki gegna öðrum störfum fyrir Austurbrú ses.
14. gr. Framkvæmdastjóri
Stjórn Austurbrúar ses. ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur stofnunarinnar og kemur fram fyrir hönd hennar í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn og vinnur samkvæmt ráðningarsamningi og starfslýsingu, skipulagsskrá þessari og fyrirmælum stjórnar. Hann ber ábyrgð á fjármálum og reikningshaldi Austurbrúar ses. í umboði stjórnar og stofnaðila og annast ráðningu starfsfólks.
Framkvæmdastjóri á rétt á að sitja stjórnar- og ársfundi, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum, og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.
Fyrir utan störf þau sem talin eru hér að ofan skal framkvæmdastjóra heimilt að vera starfsmaður stjórnar SSA samkvæmt ákvörðun SSA og nánara samkomulagi milli Austurbrúar og SSA.
15. gr. Fjármál
Stofnfé Austurbrúar ses. er kr. 1.600.000. Tekjur stofnunarinnar eru samningsbundin framlög aðila, tekjur samkvæmt þjónustusamningum við sveitarfélög og fyrirtæki, opinber framlög, gjafir, styrkir og annað sjálfsaflafé.
Austurbrú ses. hefur sjálfstæðan fjárhag og ber því ein ábyrgð á skuldbindingum sínum.
Starfsár og reikningsár Austurbrúar ses. er almanaksárið.
Stjórn skal velja einn eða fleiri löggilta endurskoðendur, eða endurskoðendafélög, sem tillögu fyrir ársfund Austurbrúar ses., til að endurskoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna.
Ef hagnaður verður af rekstri stofnunarinnar skal færa hann yfir á næsta reikningsár. Ef tap verður af rekstri stofnunarinnar skal það greitt úr sjóðum stofnunarinnar eða fært á næsta reikningsár. Stjórn er heimilt að ráðstafa hagnaði af starfsemi Austurbrúar ses. til stofnunar sérstakra sjóða með ákveðin verkefni í samræmi við 2. og 3. grein skipulagsskrár þessarar. Kynna skal sjóðsstofnun fyrir stofnaðilum og staðfesta á næsta ársfundi.
16. gr. Jafnrétti
Með vísan til 15. greinar laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, skal þess gætt að hlutfall kynjanna í stjórn og fagráði Austurbrúar ses. sé sem jafnast og ekki minna en 40% fulltrúa séu af hvoru kyni fyrir sig.
17. gr. Breytingar á skipulagsskrá – slit og sameining
Skipulagsskrá þessari má aðeins breyta á ársfundi Austurbrúar ses. með samþykki 2/3 hluta stofnaðila, sbr. og 36. gr. laga nr. 33/1999. Tillögur um breytingar á skipulagsskrá skulu sendar út með fundarboði.
Austurbrú ses. verður aðeins slitið eða sameinuð annarri stofnun með ákvörðun skv. 36. gr. laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
Verði starfsemi Austurbrúar ses. hætt og félagið lagt niður skal eigum þess varið til eflingar atvinnulífs, rannsókna, menntunar og menningar á Austurlandi.
18. gr. Úrsögn
Um úrsögn aðila Austurbrúar ses. úr stofnuninni fer skv. lögum um sjálfseignarstofnanir nr. 33/1999.
Skipulagsskrá þessi var samþykkt á stofnfundi Austurbrúar ses., 8. maí 2012 og breytingar á henni á framhaldsársfundi Austurbrúar ses. 30. september 2014 sem og ársfundi 11. maí 2016. Síðustu breytingar samþykktar á ársfundi þann 3. júní 2021.