Umhverfið, hið manngerða sem og náttúrulega, verður heilnæmt, vistvænt og öruggt. Það verður gott að búa á Austurlandi og eftirsóknarvert að
sækja það heim.
Viðfangsefni markmiðanna snúa að því að Austurland sé:
Svæði þar sem samfélagið býr við góðar samgöngur, sjálfbæra orku og öflug fjarskipti.
Svæði þar sem unnið er að því að styrkja viðnámsþrótt gagnvart hnattrænum loftslagsbreytingum og viðhalda heilbrigði staðbundinna vistkerfa.
Svæði þar sem borin er virðing fyrir verðmætu náttúrufari og landslagi og lögð áhersla á að móta aðlaðandi staði út frá landslagssérkennum, sögu og heilnæmi.
Dæmi um stefnumál
Tryggt verði að almenningssamgöngur séu í boði á milli allra þéttbýlisstaða.
Leiðakerfi bjóði upp á góða tengingu á milli ferjuferða í Seyðisfjarðarhöfn og flugs um Egilsstaðaflugvöll.
Uppbygging og viðhald vegakerfis miði að því að það taki að hámarki 60 mínútur að aka að einum af frá fjórum stærstu þéttbýlisstöðunum hvaðanæva af svæðinu.
Egilsstaðaflugvöllur eflist sem alþjóðaflugvöllur. Áfram verði unnið að því að bæta samkeppnisstöðu flugvallarins og markaðssetja hann fyrir millilandaflug.
Stofnanir og stjórnsýsla sveitarfélaganna taki tillit til loftslagsáhrifa og annarra umhverfissjónarmiða við öll innkaup og mannvirkjagerð.
Við skipulag, landnýtingu og mannvirkjagerð verði leitast við að viðhalda heilbrigði vistkerfa þannig að þau geti veitt viðnám þegar áföll dynja yfir.
Unnar verði leiðbeiningar fyrir hönnun áfangastaða í landshlutanum til að stuðla að góðum gæðum og öryggi.
Staðan árið 2024
Staðan árið 2024
Á Austurlandi eru 11 þéttbýliskjarnar og nokkrir minni búsetukjarnar. Íbúar eru 11.085 og búa á 15.706 km2 og er Austurland næst-strjálbýlasti landshlutinn með 0,7 íbúa á hvern km2. Fjögur sveitarfélög eru í fjórðungnum og búa um 95% í tveimur þeirra; Múlaþingi og Fjarðabyggð.
Á Austurlandi eru almenningssamgöngur ekki í boði til allra þéttbýliskjarna og ferðir á milli stærstu kjarnanna eru fáar. Flug er Austfirðingum nauðsynlegt vegna fjarlægðar frá höfuðborgarsvæðinu en hátt verðlag þar er mörgum íbúum og gestum farartálmi.
Í strjálbýlum landshluta eru samgöngur algert forgangsatriði og er framkvæmda á samgönguáætlun beðið, þ.m.t. að hafist verði handa við Fjarðarheiðargöng, hringtengingu á Austurlandi, Suðurfjarðaveg og heilsársveg yfir Öxi.
Þau sveitarfélög á Austurlandi sem ekki hafa enn sett sér loftslagsstefnu vinna nú að gerð hennar. Greining á kolefnisspori Austurlands var birt í júní 2024 sem sýnir að losun svæðisins pr. íbúa er yfir meðaltali
vegna stóriðju og landnotkunar.
Náttúrufar á Austurlandi er fjölbreytt, viðkvæmt, aðdráttarafl og ógnun. Friðlýstir staðir eru tólf á svæðinu en nýjasta viðbótin eru Stórurð og Gerpissvæðið árið 2021.