Fólk af erlendum uppruna

Íbúar af erlendum uppruna eru um 16,8% af heildar­íbúafjölda Austurlands og hefur fjölgað frá 2011. Meðalaldur þeirra er 33,8 ár samanborið við Íslendinga sem er 38,8 ár. Meðalaldur íbúa Austur­lands er frá 38,2 til 47,1 ár eftir sveitarfélögum. ​Námskeið í íslensku hafa verið vel sótt og ríkisborgaraprófum fjölgað mjög; voru 7 árið 2020 en 37 árið 2024.

Lýðheilsa

Austfirðingar eru undir landsmeðaltali þegar kemur að áhættudrykkju, reykingum, kyrrsetu, sýklalyfjaávísunum, fjárhagserfiðleikum og fjölda háskólamenntaðra. Mun færri fara til geðlæknis en fleiri á heilsugæslu vegna geð- og atferlisraskana. Austfirðingar taka meira af blóðfitu-, blóðsykurs- og háþrýstilækkandi lyfjum og neyta rauðs kjöts í meira mæli en landsmeðaltal segir til um. Ánægja með þjónustu og traust til heilsugæslu hefur vaxið og er meiri en á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð­inni í heild. ​

Nýsköpun

Uppbyggingarsjóður Austurlands styrkir um 30 atvinnu- og nýsköpunarverkefni árlega. Árið 2023 fengu 36,8% umsókna frá Austurlandi styrki frá Rannís að upp­hæð 76.400.603 kr. en hlutfall umsókna frá Austurlandi er aðeins 0,01% af heild. Styrkir frá Lóunni eru breytilegir á milli ára; 2023 fengu 4 aust­firsk fyrir­tæki styrk en 2024 aðeins ein af sex umsóknum sem bárust frá Austurlandi. Um 90 umsóknir berast árlega í sjóðinn.

Öryggi

Verkefnið Öruggara Austurland hófst 2023 sem samráðsvettvangur um afbrota­varnir.​ Tíðni afbrota á Austur­landi er mun lægri en landsmeðaltal er varðar auðgunar­brot, ofbeldisbrot, eigna­spjöll eða fíkni­efnabrot en aukning hefur orðið á ofbeldisbrot­um, 31,4 á hverja íbúa 2022 en 55,2 á landsvísu. Umferða­lagabrot eru hins vegar algeng­ari á Austur­landi en að meðaltali, 1675 á hverja 10.000 íbúa. Ótti við glæpi í nærumhverfi er enda mun minni
en á landinu öllu; 5,2 á móti 12,3 árið 2023. ​

Börn

Verkefnastjóri farsældarmála á Austur­landi verður tveggja ára verkefni frá 2025-2027 og markmiðið er að koma á fót Farsældarráði á Austur­landi. ​Um 30% þeirra sem starfa við kennslu eru án starfsréttinda sem er mun hærra en landsmeðaltal. ​Lýðheils­uvísar benda til meiri einmana­leika meðal ung­menna á Austurlandi og fleirum finnst þau utangarðs í skóla. Neysla orkudrykkja og nikotínpúða er hærri og fleiri hafa prófað áfengi í 10. bekk. Dregið hefur úr álagi og þreytu barna og ung­menna á milli ára (6., 8. og 10. bekkur).

Háskólanám

Námsleiðin Skapandi sjálfbærni við Hall­orms­staðaskóla var færð upp á háskóla­stig innan Menntavísindasviðs HÍ og í Skálanesi í Seyðisfirði er gátt inn í erlent háskólastarf með vett­vangs­námi. Nemendum í fjar­námi á háskóla­­stigi fjölgar, t.d. voru tekin 723 próf á Austur­landi árið 2023 en voru 490 árið 2021. Austur­land er þátt­­tak­andi í mörgum rann­sóknarverkefnum; alþjóð­legum, evrópskum og innlendum.​