Kynjahlutfall í vinnuafli á Austurlandi hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og gefur mikilvæga innsýn í þróun atvinnulífsins á svæðinu. Ný gögn Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi sýna að konur eru í auknum mæli að hasla sér völl í ábyrgðarstörfum – sérstaklega í stjórnunarstöðum sveitarfélaga og stofnana.
Nýjustu tölur sýna að konur sækja í auknum mæli í störf þar sem áhrif og ábyrgð er mikil. Á tímabilinu 2007–2023 hækkaði hlutfall kvenna í stjórnunarstörfum úr 27,5% í 48%. Þá hefur hlutfall kvenna í sérfræðistörfum aukist úr 59,4% í 68%. Þessi þróun gefur til kynna að konur séu í auknum mæli að sækja sér menntun og sérhæfingu fyrir störf sem krefjast fagþekkingar og ábyrgðar.
Í rannsóknarverkefnum Austurbrúar má einnig sjá þessa þróun. Þar kemur fram að kynjahlutfall í stjórnunarstöðum sveitarfélaga og stofnana hafi tekið miklum breytingum frá 2007 til 2025. Þá voru 34 karlar og 20 konur í slíkum stöðum, en árið 2025 eru karlar 23 og konur áfram 20. Hlutfall kvenna hefur því hækkað, þrátt fyrir fækkun stöðugilda stjórnsýslunnar í kjölfar sameiningar sveitarfélaga, sem fóru úr átta í fjögur. Svipuð þróun sést hjá bæjar- og sveitarstjórum, þar sem kynjahlutfall er nú jafnt en voru áður fimm karlar og tvær konur.
Þróunin á Austurlandi endurspeglar breytingar á landsvísu þar sem konur hafa á síðustu árum tekið við fleiri leiðtogahlutverkum í samfélaginu. Í dag gegna konur m.a. embætti forseta Íslands, forsætisráðherra og fleiri lykilráðuneyta, auk þess að leiða ríkisstofnanir og stjórnmálaflokka sem hafa víðtæk áhrif á samfélagið. Samhliða þessu eru fleiri konur en áður að hasla sér völl í áhrifastöðum á Austurlandi. Það bendir til að jafnrétti í forystu sé ekki lengur aðeins framtíðarsýn heldur þróun sem er þegar er hafin, bæði á landsvísu og á Austurlandi.
Þó að fleiri konur gegni nú stjórnunarstöðum á Austurlandi er ljóst að áfram þarf að fylgjast með þróuninni og skapa skilyrði þar sem jafnvægi og fjölbreytni einkennir allt stjórnunarstig atvinnulífsins.
Lesa alla fréttinaSjálfbærniverkefnið, sem Landsvirkjun og Alcoa standa að, hefur safnað gögnum í tæplega 20 ár, m.a. um kynjahlutföll í mismunandi störfum á Austurlandi. Þar eru kynjahlutföll greind skv. starfsflokkunarkerfinu ÍSTARF95 og með gögnum frá Hagstofu Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á stöðu kynjanna í ólíkum starfsstéttum og þróun hennar yfir tíma. Þessi mælikvarði var ákveðinn af samráðshópi verkefnisins í upphafi, í ljósi þess að fábreytt atvinnulíf og hefðbundin kynjaskipting starfa geta haft áhrif á samfélagsþróun og búsetuskilyrði á svæðinu.
Mynd: Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings og Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA og stjórnar Austurbrúar.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn