Í síðustu viku var haldin svokölluð tengslaráðstefna í fullorðinsfræðslu í Finnlandi þar sem umfjöllunarefnið var félagslegt jafnræði í ráðgjöf um nám alla ævi fyrir fullorðna nemendur. Frá Íslandi fóru þrír fulltrúar; einn frá Austurbrú, einn frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og einn frá Vinnumálastofnun.

Það var landskrifstofa Erasmus+ menntaáætlunar ESB á Íslandi sem auglýsti eftir þátttakendum á ráðstefnuna sem bar yfirskriftina „Social justice in lifelong guidance for adults“ (Félagslegt jafnræði í ráðgjöf um nám alla ævi fyrir fullorðna nema). Ráðstefnan var haldin í Levi (Lapplandi), Finnlandi, dagana 26.-29. nóvember og voru fjörutíu og tveir þátttakendur frá fjórtán Evrópulöndum skráðir.

Ráðstefnan var ætluð aðilum sem sinna ráðgjöf í fullorðinsfræðslu, einkum til jaðarhópa eða annarra sem standa höllum fæti í samfélaginu, s.s. minnihlutahópa eða innflytjenda. Fjallað var um hvernig æskilegt sé að standa að ráðgjöf til þessara hópa en það kom m.a. fram á ráðstefnunni að rannsóknir sýni að gott samband ráðgjafa og innflytjanda geti ráðið úrslitum um hvort aðlögun fólks að nýju samfélagi takist vel.

Fjölmörg áhugaverð erindi voru haldin sem öll áttu það sammerkt að fjalla um ráðgjöf og hvernig félagslegt réttlæti samtvinnast henni meðvitað og ómeðvitað. Fyrirlesarar fjölluðu um reynslu Finna af ráðgjöf til minnihlutahópa, sér í lagi innflytjenda, og þá voru líka fræðilegri fyrirlestrar sem fjölluðu um nýjar rannsóknir í náms- og starfsráðgjöf til innflytjenda og var ýmis konar siðferðilegum álitamálum sem koma upp í slíkri ráðgjöf gefinn gaumur. Fjörugar umræður sköpuðust og meðal umræðuefna voru kynþáttafordómar, réttlæti, menningarmunur og fleira.

Tilgangur slíkra tengslaráðstefna er að stofna til nýrra Erasmus+ verkefna en í gegnum þau geta Evrópusambands- og EFTA-löndin deilt reynslu og búið til nýjar lausnir í mennta- og æskulýðsmálum. Á tengslaráðstefnum, eins og þeirri sem hér um ræðir, mynda þátttakendur tengsl sem oft leiða til verkefna. Þá geta þátttakendur haldið sambandi, skipst á skoðunum og deilt þekkingu í gegnum EPALE, vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu sem hefur það að markmiði að efla samskipti fagfólks sem sér um fullorðinsfræðslu í Evrópu.

Frekari upplýsingar: Erasmus+ og EPALE-vefgáttin

Mynd: Íslenskir þátttakendur ráðstefnunnar (f.v.): Margrét Sverrisdóttir, verkefnisstjóri EPALE, Guðrún Stella Gissurardóttir frá Vinnumálastofnun, Arndís Harpa Einarsdóttir hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Jón Knútur Ásmundsson frá Austurbrú.