Áskoranir
Á Íslandi hefur innflytjendum fjölgað hratt á síðustu árum og allar spár gera ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram. Á Austurlandi er fjöldi innflytjenda um 1500 eða um fimmtán prósent íbúafjöldans sem er svipað hlutfall og á landinu öllu. Þessu fylgja ýmsar áskoranir og við berum öll ábyrgð á því að taka vel á móti þessum hóp. Tungumálið spilar þar lykilhlutverk og er í grunnforsenda farsællar aðlögunnar að íslensku samfélagi.
Víða á landsbyggðinni er áskorun að fá lágmarksfjölda nemenda í íslenskunám fyrir útlendinga. Ýmsir þættir aðrir en fólksfjöldi hafa áhrif á þetta t.d. langir vinnudagar, vaktavinnufyrirkomulag, samgöngur svo eitthvað sé nefnt. Hjá Austurbrú hefur um nokkurt skeið verið unnið að þróunarverkefnum sem eiga að bæta aðgengi að íslenskunámi. Eitt þeirra er verkefni sem gengur undir heitinu „LÍSA – Lærum íslensku“. Um er að ræða smáforrit sem auðveldar innflytjendum að læra íslensku hvar og hvenær sem er.
Kennslutæki í formi smáforrits
„LÍSA – Lærum íslensku“ verður kennslutæki í formi smáforrits fyrir snjallsíma, ætlað erlendum íbúum sem vilja læra íslensku. Þetta er eins konar „námsleikur“, unninn á grunni fjögurra þrepa námskrár sem aftur byggist á Evrópska tungumálarammanum (CEFR).
Markhópurinn er stór eða allir innflytjendur sem búa og starfa á Íslandi og með verkefninu er komið til móts við þarfir þessa hóps og atvinnulífsins um að kenna grunnatriði íslensku auk hagnýtrar samfélagsfræðslu. Kennslan er óháð búsetu og/eða vinnutíma.
Auk þess að verður LÍSA öflugt kennsluverkfæri í fullorðinsfræðslu og mun smáforritið jafnframt gagnast í kennslu barna og unglinga í grunn- og framhaldsskólum.
Ávinningur
Með LÍSU geta erlendir nemendur:
- Lært grunnatriði íslensku og um megineinkenni íslensks samfélags.
- Lært hvar og hvenær sem er.
- Séð kort af skóla, hverfi, bæ eða það sem við á áður en skólaganga hefst. Það eykur öryggi nemenda og minnkar líkur á brottfalli.
- Fengið ýmsar hagnýtar upplýsingar á sínu móðurmáli sem flýtir aðlögun að íslensku samfélagi.
Þetta verður auk þess fjölbreytt og nytsamlegt kennslutæki fyrir kennara sem mun henta vel í persónumiðaðri kennslu.
Samstarfsaðilar
Austurbrú stýrir verkefninu en vinnan við það kallar á mikla sérfræðiþekkingu. Samstarfsaðilar okkar eru Miðeind, eitt af fremstu fyrirtækjum á Íslandi á sviði máltæknilausna, og Stokkur sem er leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi í gerð smáforrita. Aðrir samstarfsaðilar verkefnis eru Símey: Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og Studieskolen (tungumálaskóli í Danmörku) sem vinna með Austurbrú að nýrri nálgun á Evrópska tungumálarammanum. Fjölmenningarsetur er til ráðgjafar og starfsmenn fiskvinnslufyrirtækisins Búlandstinds munu prufukeyra fyrstu útgáfu smáforritsins og koma með tillögur að úrbótum.
Staðan í dag
LÍSA hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið en hugmyndin kviknaði árið 2020 hjá Berglindi Einarsdóttur sem sá um kennslu og umsýslu íslenskunámskeiða hjá Austurbrú. Á vordögum 2023 er verið að þróa tækni og aðferðir til að taka upp framburð orða. Í raddsöfnuninni leitum við til mismunandi aðila, fólks af erlendum uppruna, til að bera fram þau íslensku orð sem við leggjum áherslu á að notendur læri að bera fram, nemi við heyrn og geti lesið. Þessari vinnu lýkur í haust og í beinu framhaldi verður lögð áhersla á vinna samfélags- og atvinnutengda orðaforðann og námsefnisgerð honum tengdum. Ýmis vinna við þróun tæknilausna tekur þá við sem þegar er búið að móta að hluta og við reiknum með að hefja tilraunaprófanir á árinu 2024 með það markmið að LÍSA verði tilbúin til notkunar haustið 2025.
Fjármögnun
LÍSA hefur hlotið styrki úr Markáætlun í tungu og tækni, Fræðslusjóði atvinnulífsins og Sóknaráætlun Austurlands. Fyrir liggja svo umsóknir í fleiri sjóði en þróun smáforrits af þessum toga er kostnaðarsöm og ljóst að fjármögnun þarf að koma úr ýmsum áttum.