Hvernig menntun þurfum við?
Spurt var um hugmyndir og viðhorf landshlutans sem heildar. Viðmælendur voru beðnir um að setja sig í aðrar stellingar og ræða þetta út frá sjónarhóli Austfirðings, að velta fyrir sér menntunarþörfum landshlutans í dag og í næstu framtíð. Inn í þetta spunnust umræður um áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar.
Eðlilega voru svörin undir áhrifum þess hvar viðmælandinn starfaði. Þannig voru viðmælendur frá sjávarútvegs- og iðnfyrirtækjum sammála um að það vantaði iðnaðarmenn og „tæknilega sinnað“ fólk í landshlutann og reyndar var þetta viðhorf sem kom víðar fram en frá þessum atvinnugreinum, t.d. hjá viðmælendum úr verslunarstétt.
„Tæknivæðing mun aukast víða, það þarf færra fólk og það þarf að vera vel menntað. Þetta er svo sem ekki bara þróunin hér heldur alls staðar í heiminum,“ sagði einn viðmælandi frá sjávarútvegsfyrirtæki og annar úr sama geira bætti við:
„Óbreyttum starfsmönnum mun fækka. Sérþekking kemur í staðinn, t.d. menn sem þurfa að halda utan um vélarnar, rafeindavirkjar og eitthvað slíkt. Allt er að verða vélvæddara eins og staðan er núna hjá okkur.“
Sami viðmælandi sagði líka aðspurður um hvers konar menntað fólk vantaði á svæðið:
„Augljósa svarið er iðnaðarmenn en ég veit ekki hvort það snúist bara um skort á menntunartækifærum. Kannski vill fólk ekki læra þetta þótt klárlega vanti iðnaðarmenn. Ég er í stjórn annars fyrirtækis og þar er líka skortur á iðnaðarmönnum, góðum iðnaðarmönnum. Við vorum að ræða annað, t.d. með stelpur, að koma þeim í iðnnám. Konur eru ekki að sækja í þetta. Þetta tengist því hvernig við erum að ala börnin okkar upp. Dóttir mín pælir í því hvort hún verði lögfræðingur eða læknir. Iðnnám kemur ekki inn í myndina. Sama á við skipin þótt laun þar geti verið góð.“
Viðmælandi úr ferðaþjónustu orðaði þetta svona frá sjónarhóli sinnar atvinnugreinar:
„Ef maður hugsar eingöngu um þennan bransa, þann sem ég þekki best, gistiaðila og þess háttar hér á fjörðunum, þá hugsa ég stundum um þá sem eru í forsvari. Þeir eru sjaldnast menntaðir í stjórnun, rekstri eða markaðsfræði.“
Áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar
Í tengslum við þessa umræðu var spurt út í hugmyndir og væntingar til framtíðarinnar og þá oft í ljósi breyttra atvinnuhátta í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar svonefndu. Nokkrir viðmælendur sögðu að hún væri hafin fyrir nokkru og minni þörf fyrir mannshöndina í ýmsum verkum en ljóst var að flestir viðmælendur töldu að þessar breytingar ættu eftir að hafa mun meiri áhrif á næstu árum.
Þetta sagði t.d. starfsmaður sveitarfélags:
„Ég hef verið að reyna stofna til þróunarverkefna innan skóla sem tengjast því að efla allskonar vísindi, raungreinar, rökhugsun og skapandi hugsun,“ sagði hann. Tilgangurinn sá að fólk yrði færara að búa til sín eigin tækifæri og „móta sinn veruleika“ eða eins og hann sagði:
„Við þurfum að hætta að vera svona fókusuð á afmörkuð svið. Við þurfum að opna okkur svo við getum höndlað mjög breyttan veruleika.“
Fleiri töldu að fjórða iðnbyltingin myndi hafa mikil áhrif, t.d. sagði viðmælandi frá stóru iðnfyrirtæki að þó hún muni ekki endilega fækka störfum muni þau breytast og krefjast meiri og annars konar menntunar og færri störf verði í boði sem krefjast engrar menntunar.
Viðmælandi úr heilbrigðisstétt sagði heilbrigðisgeirann kominn „á fleygiferð“ inn í þessar breytingar þótt vélar hafi ekki leyst fólk af. „Við erum ekki alveg þar,“ segir hann „en fjarlækningar munu aukast mjög á næstu árum.“