Umhverfisverkefni Austurbrúar
Umhverfismál og sjálfbærni eru rauður þráður í öllu starfi Austurbrúar. Með fjölbreyttum verkefnum er unnið markvisst að því að styrkja samfélagið, atvinnulífið og innviði Austurlands í sátt við náttúruna. Verkefnin á þessu sviði byggja á framtíðarsýn Svæðisskipulags Austurlands 2022–2044 og sóknaráætlun landshlutans í loftslagsmálum. Með samvinnu sveitarfélaga, íbúa og atvinnulífs viljum við tryggja að Austurland verði áfram góð heimkynni – heilnæmt, vistvænt og öruggt svæði – fyrir núverandi og komandi kynslóðir.
Á Austurlandi vinnum við markvisst að sjálfbærri þróun í anda sóknaráætlunar landshlutans. Sveitarfélögin hafa sameinast um að setja sér umhverfis- og loftslagsstefnu og taka upp svæðisbundið losunarbókhald til að draga úr kolefnisspori. Markvisst er unnið að því að minnka magn úrgangs og auka endurnotkun, endurvinnslu og aðra nýtingu þess sem annars færi til urðunar. Markmiðið er að einungis 10% heimilisúrgangs verði urðaður og að endurvinnsla nái 65% árið 2035.
Við leggjum einnig áherslu á að byggja upp samvinnuhúsnæði í sem flestum byggðarlögum, sem eykur möguleika á óstaðbundnum störfum og hvetur til nýsköpunar. Þá styðjum við áfram við nýtingu skógarauðlindarinnar, þar sem Austurland er í fararbroddi á landsvísu með frumkvöðlastarfsemi og framtíðarnýtingu skóga til verðmætasköpunar.
Nánari upplýsingar

Sara Elísabet Svansdóttir
Sameiginleg úrgangsáætlun
Sveitarfélögin á Austurlandi hafa unnið sameiginlega áætlun í úrgangsmálum til ársins 2035. Markmiðið er að styðja við hringrásarhagkerfi með því að draga úr myndun úrgangs, auka endurvinnslu og endurnýtingu og lágmarka förgun. Lögð er áhersla á að lífrænn úrgangur nýtist, flutningar verði lágmarkaðir og úrgangsþjónusta efld í samstarfi sveitarfélaga. Meðal lykilaðgerða eru stofnun sameiginlegs fasts vinnuhóps um úrgang („Úrgangsráð Austurlands“), greining á möguleikum til sameiginlegrar aðstöðu fyrir úrgangsefni í fjórðungnum og ítarleg athugun á uppbyggingu sorporkuvers á Austurlandi.
NánarUmhverfisráðstefna Austurlands
Umhverfisráðstefna Austurlands er samstarfsverkefni Austurbrúar, Eflu og Eyglóar, þar sem sjónum er beint að sjálfbærri framtíð í mannvirkjagerð, skipulagi og nýtingu auðlinda með Austurland í forgrunni. Fyrsta umhverfisráðstefnan fór fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum þann 5. júní 2025 og dregur til sín leiðandi sérfræðinga á sviði mannvirkjagerðar og vistvænna lausna.
NánarSamvinnuhús á Vopnafirði
Austurbrú vinnur að því að efla starfsemi samvinnurýma á Austurlandi. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur úthlutað 140 milljónum króna til þrettán fjölbreyttra verkefna um land allt, sem hluti af byggðaáætlun, og meðal þeirra verkefna sem hafa hlotið styrk er uppbygging samvinnuhúss á Vopnafirði en Samband sveitarfélaga á Austurlandi fékk 14 milljónir króna til slíkrar uppbyggingar. Markmiðið er að skapa aðstöðu fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi, styðja við óstaðbundin störf og auka möguleika á fjarnámi í byggðakjörnum landshlutans. Með þessu verður stuðlað að sjálfbærri byggðaþróun og fjölbreyttari atvinnumöguleikum á svæðinu í samræmi við stefnu Svæðisskipulags Austurlands 2022–2044 og Sóknaráætlun Austurlands 2025–2029.
NánarKolefnisspor Austurlands 2022
Kolefnisspor Austurlands 2022 er fyrsta heildstæða úttektin á losun gróðurhúsalofttegunda í landshlutanum. Skýrslan var unnin af Umhverfisráðgjöf Íslands fyrir Austurbrú og veitir sveitarfélögum, atvinnulífi og íbúum mikilvægar upplýsingar um stöðuna og helstu áskoranir í loftslagsmálum. Hún leggur grunn að markvissum aðgerðum, samvinnu og stefnumótun til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis, í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og markmið Íslands um kolefnishlutleysi. Með þessu verki fá stjórnvöld og samfélagið á Austurlandi traustan vegvísi til framtíðar.
NánarÖnnur verkefni á sviði umhverfismála
Austurbrú hefur í gegnum tíðina tekið virkan þátt í fjölbreyttum verkefnum á sviði umhverfismála, í nánu samstarfi við Samband sveitarfélaga á Austurlandi og sveitarfélögin í landshlutanum. Sú vinna byggir á framtíðarsýn Svæðisskipulags Austurlands 2022–2044 og sóknaráætlun landshlutans, þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra þróun, ábyrga nýtingu auðlinda og bætt lífsgæði íbúa.
Dæmi um verkefni
- Kynningarefni um hringrásarhagkerfið Árið 2022 fékk Austurbrú listamennina Elínu Elísabetu Einarsdóttur, Rán Flygenring og Sebastian Ziegler (sjá frétt) til að vinna stuttar og aðgengilegar kynningarmyndir um hringrásarhagkerfið. Myndirnar hlutu styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
- Vistvænt þotueldsneyti Austurbrú hefur ásamt norska orkuklasanum Energi i Nord athugað fýsileika framleiðslu vistvæns þotueldsneytis á Austurlandi og í Norður-Noregi. Rannsóknin var styrkt af norræna samstarfsvettvanginum NORA.
- Natalie-verkefnið Austurbrú tekur þátt í NATALIE verkefninu sem samstarfsaðili Matís. Verkefnið miðar að því að þróa náttúrumiðaðar lausnir sem auka seiglu samfélaga á Austurlandi gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga. Sjá frétt.