Um fimmtíu manns mættu á vinnustofu í Valaskjálf, Egilsstöðum, á vegum Austurbrúar þann 17. maí vegna vinnu við gerð menningarstefnu fyrir Austurland. Menningarstefnan er unnin á grunni Svæðisskipulags Austurlands 2022 – 2044 og mun marka með ítarlegri hætti sameiginlega framtíðarsýn og áherslur landshlutans í málefnum menningar og lista.
Fundurinn var haldin í Valaskjálf, Egilsstöðum, og var opinn öllum en eins og við mátti búast var það fyrst og fremst listafólk og fulltrúar menningarstofnana og sveitarfélaga sem mættu. Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, hefur unnið að uppbyggingu menningarstarfs í landshlutanum um áratugaskeið. Hún segir að þetta hafi verið góður og gagnlegur fundur og að þátttakendur hafi verið virkir.
„Við erum þessa stundina að taka saman niðurstöður vinnunnar,“ segir hún, „og átta okkur á sameiginlegum þráðum og stefjum í umræðunni. Við munum á næstu dögum og vikum ráðfæra okkur við fleiri fulltrúa ólíkra listgreina sem voru ekki á vinnustofunni en við viljum auðvitað að stefnan endurspegli sjónarmið sem flestra er aðkomu hafa að menningar- og listastarfi á Austurlandi. Það er býsna stór hópur þegar grannt er skoðað.“
Menningarstefnan er unnin á grunni Svæðisskipulags Austurlands 2022-2044 sem staðfest var sl. haust. Hún er hugsuð sem ítarlegri útfærsla á þeirri stefnu sem lýst er í skipulaginu en áhugasamir geta kynnt sér framtíðarsýn Austurlands í menningarmálum m.a. í kafla 6.2 í svæðisskipulaginu.
Á vinnustofunni héldu Anna Richardsdóttir, listakona frá Akureyri, og Julia Martin, menningarstjórnandi, inngangserindi. Anna er landsþekkt gjörningalistakona sem m.a. hefur farið um heiminn í gervi skúringarkonu og þrifið hann! Julia hefur verið búsett á Austurlandi í nokkur ár og hefur mikla reynslu af menningarstjórnun. Hún ræddi um mikilvægi stuðningskerfis, bæði kerfislægs og pólitísks, fyrir listir og menningu. Erindin voru innblástur fyrir þemavinnu þátttakenda sem tókust á við hin ýmsu viðfangsefni s.s. hlutverk menningarstofnana, safna, barnamenningar og menningararfs.
Sem fyrr segir var vinnustofan vel sótt og árangursrík. „Við höfum mikið af gögnum til áframhaldandi vinnu,“ segir Signý en ítrekar að vinnunni sé ekki lokið. Starfsmenn Austurbrúar muni á næstu vikum halda samtalinu opnu og leita uppi fleiri sjónarmið enda sé menningarlífið á Austurlandi nú þegar fjölbreytt og hagmunirnir margir og stundum ólíkir.
„Okkar verkefni er að skilgreina þau sameiginlegu markmið sem við getum öll sæst á og gert að okkar en það er að sjálfsögðu eðlilegt framhald af þessari vinnu að sveitarfélögin vinni áfram að sínum eigin menningaráætlunum enda geta áherslurnar verið ólíkar á milli sveitarfélaga. Sú vinna er raunar nú þegar hafin hjá einu sveitarfélagi,“ segir Signý.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn