Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið úthlutaði í lok september alls 1.032 milljónum króna úr Loftslags- og orkusjóði til jarðhitaleitar og tengdra aðgerða víða um land. Markmiðið er að hraða orkuskiptum í húshitun og draga úr raforkunotkun á svokölluðum köldum svæðum.
Austurland hlaut samtals tæpar 250 milljónir króna, og fer stærstur hluti styrkjanna til fjarvarmaveitunnar á Seyðisfirði. HEF veitur fengu þrjá styrki, alls að upphæð rúmlega 170 milljónir króna:
Auk þess fær Hitaveita Fjarðabyggðar 40 milljónir króna til áframhaldandi jarðhitaleitar á Fáskrúðsfirði, Vopnafjarðarhreppur 30 milljónir í framhaldsstyrk til jarðhitaleitar í Selárdal og HEF veitur 8 milljónir til jarðhitaleitar á Borgarfirði eystra.
Alls hlutu 18 verkefni styrk úr sjóðnum í þessari úthlutun. Níu þeirra snúa að rannsóknarborunum, sjö að varmadæluverkefnum og tvö að varmageymslum.
Samkvæmt Umhverfis- og orkustofnun mun átakið Jarðhiti jafnar leikinn losa um 80 gígavattstundir af dýrmætri vetrarraforku á næstu árum.
Orkusparnaðurinn samsvarar raforkunotkun 20 þúsund heimila eða árlegri framleiðslu allra virkjana Orkubús Vestfjarða samanlagt.
Áhersla á sjálfbæra nýtingu jarðhita fellur vel að markmiðum Svæðisskipulags Austurlands 2024–2040 og Sóknaráætlunar Austurlands, þar sem lögð er rík áhersla á orkuskipti, orkuöryggi og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda til eflingar byggðaþróun. Á Haustþingi SSA 2025, sem haldið var á Vopnafirði 18. september, var áréttað að nýting jarðvarma væri lykilatriði í sjálfbærum orkuskiptum og að tryggja þyrfti jöfn tækifæri sveitarfélaga til þátttöku í þeirri umbreytingu.
Úthlutunin úr Loftslags- og orkusjóði styður þannig beint við þau markmið og styrkir grunn að orku- og atvinnuþróun á Austurlandi til framtíðar.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn