Samráðsfundur
Boðað var til samráðsfundar á Eiðum þann 23. ágúst 2023 með yfirskriftina „Hjarta mitt slær í sveitinni – samtal um framtíðartækifæri í sveitum Austurlands“. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum og mættu um 60 manns af öllu Austurlandi. Þátttakendur stungu sjálfir upp á umræðuefnum og komu víða við. Kallað eftir ábendingum um hvað mætti bæta varðandi innviði á Austurlandi en þar voru samgöngur efstar á blaði; nýframkvæmdir, endurbætur og viðhald en einnig net- og farsímasamband og þriggja fasa rafmagn. Huga þurfi sérstaklega að ógnum vegna náttúruváa sem gætu haft áhrif á innviði, t.d. vatnsból. Umsjón með fundinum og úrvinnslu hafði Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI í samstarfi við starfsfólk Austurbrúar og samantekt frá honum má sjá hér að neðan.
Skoða samantektUm verkefnið
Um verkefnið
Tilgangur og tilurð
Mannfjöldaþróun í dreifbýli á Austurlandi er í takt við þróun á landinu í heild. Samfélagsþróun á dreifbýlli svæðum landshlutans einkennist því af langvarandi fólksfækkun og hækkandi meðalaldri og óhætt að segja að þau hafi ekki notið nema takmörkuðu leyti uppbyggingar á miðsvæði Austurlands. Það er því sannarlega brýnt viðfangsefni að fjölga atvinnutækifærum fyrir ungt fólk sem býr eða vill búa í dreifbýli.
Verkefnið ber heitið Vatnaskil og á orðið sér tvær merkingar. Í fyrsta lagi vísar það til markalínu þaðan sem vatn fellur í mismunandi áttir. Þetta sést stundum með skemmtilegum hætti í landslagi á Austurlandi t.d. á Fagradal milli Reyðarfjarðar og Héraðs. Í öðru lagi vísar merking orðsins í þá stund þegar mál taka nýja stefnu s.s. tímamót. Væntingar okkar til verkefnisins eru einmitt þær að það marki upphaf að nýrri stefnu í stuðningi við dreifbýli í landshlutanum óháð sveitarfélagsmörkum.
Verkefnið er unnið í samvinnu við Félag ungra bænda á Austurlandi og Búnaðarsamband Austurlands og hlaut styrk úr byggðaáætlun í febrúar 2023. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2022-2036 (aðgerð C.1). Það er unnið á grunni Svæðsskipulags Austurlands 2022-2044 þar sem m.a. er kveðið á um að landbúnaður verði áfram ein af lykilatvinnugreinum landshlutans og það styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (nr. 8, 9, 10 og 11). Áherslur verkefnisins eru í samræmi við nýsamþykkta byggðaáætlun en meðal helstu viðfangsefna hennar er að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum og einhæft atvinnulíf.
Verklag
Unnið verður eftir þeim aðferðum sem við höfum beitt í framkvæmd verkefna Brothættra byggða. Þeim er ætlað virkja kraft og virkni íbúa, auka samkennd, samfélagsvitund og samfélagslega ábyrgð. Verkefninu er skipt í þrjá verkþætti: Í þeim fyrsta fer fram upplýsinga- og heimildaöflun og á grunni hennar verður unnin stöðugreining sem kynnt verður þátttakendum á samráðsfundi. Þar fer fram opin umræða um hver brýnustu verkefnin séu og verkefnisstjórn skipuð. Í öðrum verkþætti verða niðurstöður samráðsfundarins greindar og á grunni þeirra samin verkefnisáætlun og í þriðja verkþættinum verða skipaðir vinnuhópar um sérstök málefni og/eða verkefni og jafningjafræðsla virkjuð. Áhersla verður lögð á námskeið (t.d. hraðla) sem henta þátttakendum.
Árangur og mælikvarðar
Í lok þriðja verkþáttar verður boðað til fundar þar sem árangurinn verður metin. Væntingar okkar eru þær að dreifbýli á Austurlandi styrkist. Það má t.d. meta með auknum fjölda umsókna í Uppbyggingarsjóð Austurlands og í aðra sambærilega sjóði, að ný fyrirtæki verði til, atvinnutækifærum fjölgi, aukin úrvinnsla afurða, fleiri vörutegundir og aukin fullvinnsla matvæla og sjálfbær nýting auðlinda á svæðinu. Reynsla okkar af verkefnum Brothættra byggða (t.d. á Borgarfirði eystri) er sú að áhrif samfélagsþróunarverkefna af þessu tagi koma víðar fram. Má þar nefna aukið samstarf á milli fólks og fyrirtækja, aukin virkni og samfélagsvitund meðal íbúa. Slík þróun er afar jákvæð og ýtir undir samkennd og þá trú að fólk geti breytt aðstæðum sínum. Áætlað að verkefninu ljúki í mars 2024.