Þann 31. ágúst 2023 fundaði ríkisstjórn Íslands með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi þar sem rædd voru ýmis mál sem brenna á Austfirðingum s.s. atvinnumál, orkumál, öryggismál, heilbrigðismál og opinber þjónusta á svæðinu. Hér er ræða Berglindar Hörpu Svavarsdóttur, formanns SSA, birt í fullri lengd.
„Virðulegu ráðherrar, kæra ríkisstjórn.
Það er okkur mikill heiður að fá ríkisstjórn Íslands hér í dag til samtals við Austurland.
Austurland vantar sterkari rödd.
Hvað veldur og hver er lausnin?
Norðausturkjördæmi er afar stórt kjördæmi og einungis tveir þingmenn af tíu eru frá Austurlandi. Þeir eiga að vera sterk rödd okkar inni á Alþingi. Það er afar skýrt að mínu mati að kjördæmið verði að vera minna svo þingmenn geti í raun sinnt sínu kjördæmi vel, eins og var hér á árum áður. Þannig geta þeir verið í góðu sambandi við sína kjósendur, vitað hvað á þeim brennur og endurspeglað áherslurnar með öflugri rödd inni á Alþingi.
Í upphafi aldarinnar urðu vatnaskil í sögu Austurlands. Stærsta vatnsaflsvirkjun landsins reis við Kárahnjúka með framleiðslugetu upp á 690 MW og álver reis á Reyðarfirði.
Álverið er stærsti vinnustaður landshlutans og framleiðir rúmlega þriðjung af öllu áli hér á landi.
Útgerðarfyritækin á Austurlandi eru einnig öflug. Þau hafa ráðist í gríðarlegar framkvæmdir síðustu árin, eru alþjóðlega samkeppnishæf og bjóða upp á vel launaða atvinnu fyrir Austfirðinga.
Fiskeldi er einnig vaxandi atvinnugrein á Austurlandi. Mikil uppbygging hefur verið á Djúpavogi, framundan eru framkvæmdir við nýtt sláturhús í bænum og stærðarinnar umbúðaverkssmiðja var gangsett síðastliðið sumar.
Ferðaþjónustan blómstrar og hver segullinn af öðrum dregur ferðamenn inn á svæðið. Þar má nefna Stuðlagil, Vök, Bláu kirkjuna og regnbogagötuna á Seyðisfirði, Óbyggðasetrið í Fljótsdal, Steinasafn Petru á Stöðvarfirði og Hengifoss, svo ekki sé minnst á lundann á Borgarfirði og fjölmargar aðrar perlur. Þá má ekki gleyma menningarhátíðunum okkar, t.d. Bræðslunni og listahátíðinni LungA.
Á Austurlandi búa ríflega ellefu þúsund manns í fjórum sveitarfélögum. Sveitarfélögin mynda sameiginlega og sterka rödd í gegnum Samband sveitarfélaga á Austurlandi. Þessi sameiginlega rödd einkennir Svæðisskipulag Austurlands til ársins 2044 sem allar sveitarstjórnir samþykktu í fyrra og Skipulagsstofnun staðfesti.
Markmið sveitarfélaga á Austurlandi er að landshlutinn verði sífellt eftirsóknarverðari til búsetu, starfa og ferðalaga. Svæðisskipulaginu er ætlað að stuðla að þessu markmiði með samstilltri stefnu sveitarfélaganna á sviði umhverfis, efnahags, samfélags og menningar. Til að framtíðarsýnin verði að veruleika er gríðarleg þörf á innviðauppbyggingu á Austurlandi.
Þegar minnst er á innviðauppbyggingu beinist athyglin jafnóðum að fjármagninu. Hvað kostar uppbyggingin? Næsta hugleiðing þeirra sem um budduna halda er yfirleitt hvort réttlætanlegt sé að fara í þá fjárfestingu úr ríkissjóði. Á hverju eiga þau rök að byggja? Hvernig réttlætum við innviðauppbyggingu í landshluta eins og okkar? Á verðmætasköpun svæðisins? Á verðmætasköpun svæðisins á hvern einstakling? Já, það myndi ég halda.
Við skulum fara yfir verðmætasköpun Austurlands. Hvað leggur Austurland í púkkið til ríkisins?
Millifyrirsögn: Hver Austfirðingur framleiðir tífalt á við landa sína
Ráðgjafafyrirtækið Analytica hefur tekið saman gögn fyrir okkur til að koma því skýrt og faglega fram hver hluti Austurlands er í útflutningstekjum sem svo skila sér að stórum hluta í sameiginlegan sjóð ríkisins.
Mynd 1: Útflutningur á sjávarafurðum
Árið 2022 voru útflutningsverðmæti sjávarafurða á landsvísu að viðbættu fiskeldi tæpir 400 milljarðar og af því er hlutur Austurlands um 87 milljarðar.
Snúum okkur næst að útflutningstekjum álframleiðslu á Austurlandi.
Árið 2022 voru heildarverðmæti álframleiðslu á landsvísu rúmir 400 milljarðar. Hluti Fjarðaáls er 143 milljarðar.
Mynd 3: Verðmæti vöruútflutnings frá Austurlandi
Álframleiðsla og fiskútflutningur á Austurlandi skapar því fjórðung útflutningstekna þessa lands; um 230 milljarða. Ef við bætum við tekjum af erlendum ferðamönnum á Austurlandi, rétt rúmlega 21 milljarði samkvæmt mati Analytica, hækka útflutningsverðmæti Austurlands upp í rétt liðlega 250 milljarða.
Mikilvægt er að reikna út virði vöruútflutnings miðað við höfðatölu því afar þreytandi og ósanngjarnt er að hlusta ávallt á þau rök að uppbygging eigi að haldast í hendur við íbúafjölda.
Mynd 4: Virði vöruútflutnings miðað við höfðatölu
Á Austurlandi búa ríflega ellefu þúsund manns, eins og fyrr segir, en það gerir 2,9% af heildarmannfjölda hér á landi. Þessi 2,9% þjóðarinnar skapa um 23% útflutningstekna hér á landi. Í því samhengi má segja að hver Austfirðingur framleiði tífalt á við landa sína. Þá varpa ég fram spurningunni um hversu há prósenta af 230 milljörðum, sem Austfirðingar búa til með sinni vinnu, skilar sér árlega í innviðauppbyggingu á Austurlandi? Staðreyndin er afar lág prósenta.
Mig langar í þessu samhengi að vitna í Gunnþór Ingvason, forstjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað:
„Með því að gera svæðið að einu atvinnusvæði með bættum samgöngum mun vinnumarkaðurinn styrkjast, hagur fyrirtækja og byggðakjarna eflast og svæðið verða áhugaverðara til búsetu.“
Og í beinu framhaldi vil ég koma á framfæri mikilvægum skilaboðum frá Aðalheiði Ósk Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Vök Baths.
„Það skiptir gríðarlegu máli að ráðast í uppbyggingu samgangna á Austurlandi en staðreyndin er sú að góðir vegir skipta litlu máli ef þeir eru ófærir stóran hluta ársins. Ef þjónustan við vegina okkar er góð mun gestum fjölga hratt og ferðaþjónustan á Austurlandi mun stóreflast.“
Eins og þið heyrið kallar atvinnulífið á Austurlandi, sem nú þegar er í mikilli sókn, á alhliða innviðauppbyggingu. Aukinn vöxtur og verðmætasköpun í landshlutanum er háð því að íslenska ríkið fjárfesti samhliða og myndarlega í innviðum á Austurlandi!
Með Svæðisskipulagi Austurlands höfum við Austfirðingar sammælst um ákveðna forgangsröðun. Þar eru Fjarðarheiðargöng í fyrsta áfanga og fast á eftir fylgja göng frá Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð og þaðan á Norðfjörð. Þannig tengjum við saman miðsvæði Austurlands. Með hringtengingunni verður til eitt atvinnu- og þjónustusvæði sem rýfur einangrun byggðalaga og tryggir ávallt örugga undankomuleið þegar hættuástand skapast vegna ofanflóða.
Metnaðarfull jarðgangnaáætlun hefur verið í gildi hér á landi og lögð áhersla á að ávallt sé unnið að einum göngum ár hvert, en engin jarðgöng hafa verið boruð í nokkur ár.
Í dag eru aðeins ein göng fullhönnuð og tilbúin til framkvæmdar, fyrrnefnd Fjarðarheiðargöng. Við leggjum á það þunga áherslu að þær framkvæmdir verði hafnar samkvæmt áætlun og samhliða verði farið í hönnun á Seyðisfjarðargöngum og Mjóafjarðargöngum. Það tekur að lágmarki þrjú til fjögur ár að hanna göng auk umhverfismats og það er algerlega ólíðandi að láta það hvarfla að sér að ekkert verði unnið að göngum hér mörg ár í röð, bara til að ákveða mögulega aðra leið! Þetta segi ég ekki síst í því ljósi að kjósendur um allt land hafa margoft sýnt skýran vilja í könnunum um að leggja aukna áherslu á uppbyggingu samgönguvinnviða.
Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á flugsamgöngum á Austurlandi. Þær eru okkur mikilvægar enda erum við sá landshluti sem er fjærst höfuðborginni. Austurland er einnig í stystu fjarlægð frá Evrópu sem skapar gríðarleg tækifæri, t.d. við frekari útflutning og losar þannig um þungaflutninga af vegum landsins. Ekki veitir af. Útflutningur á ferskum fiski með flugi frá Egilsstöðum myndi margfalda virði hans og skila auknum tekjum í ríkiskassann. Ég vil í þessu samhengi gera orð Jens Garðars Helgasonar, aðstoðarforstjóra Ice Fish Farm, að mínum:
„Það eru gríðarleg tækifæri í uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar fyrir fraktflutninga. Vikulegt flug með ferskan lax á markaði í Asíu og vesturströnd Bandaríkjanna er raunhæf sviðmynd. Til þess að það geti orðið að veruleika þarf að lengja brautina og byggja upp fraktaðstöðu.“
Fyrsta flugstefna Íslands leit dagsins ljós árið 2019 og Egilsstaðaflugvöllur er þar skilgreindur í algjörum forgangi í uppbyggingu varaflugvalla hér á landi sem tryggja eiga öryggi í alþjóðaflugi. Sú uppbygging er einkar mikilvæg nú á dögum í ljósi jarðhræringanna á Reykjanesi.
Hér sjáum við hönnun sem ISAVIA lét vinna til að standa undir mikilvægu varaflugvallagildi vallarins í takt við flugstefnu Íslands. Hægt er að fara strax í flughlöðin og endaakstursbrautina ef vilji er til þess að drífa framkvæmdir í gang. En hvernig ætli uppbygging Egilsstaðaflugvallar gangi? Í umsögn Icelandair við flugstefnuna kemur skýrt fram að Egilsstaðaflugvöllur sé besti kosturinn til uppbyggingar m.t.t. varaflugvallagildis. Fjallendi sé langt í burtu og aðkoman sé afar hentug með tilliti til vinds, aðflugs og brottfluga. Icelandair lagði einnig áherslu á að hefja ætti sem fyrst uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli vegna lægsta kostnaðar við þá uppbyggingu og stysta framkvæmdatímann. Þrátt fyrir þessi faglegu og góðu rök frá Icelandair hefur dregist mjög að huga að uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. Í drögum að nýrri samgönguáætlun er ekki áætlað að fara í neinar umfangsmiklar framkvæmdir á við hann fyrr en á árunum 2029 til 2033. Þessi staðreynd, að við sitjum enn og aftur eftir þrátt fyrir stefnumótandi áherslur Alþingis um uppbyggingu, er áhyggjuefni. Hvað skyldi valda því að Egilsstaðaflugvöllur hafi ekki verið settur í forgang?
Er mögulegt að ástæðan sé sú að aðeins tveir þingmenn af tíu í Norðausturkjördæmi eru frá Austurlandi?
Ef svo er liggja ekki fagleg rök til grundvallar því að tryggja öryggi alþjóðaflugs til og frá landinu. – og það er áhyggjuefni!
Í ræðu minni hefur komið skýrt fram – og á faglegan hátt með aðstoð ráðgjafafyrirtækisins Analytica og Austurbrúar – að Austurland skapar gríðarlega hátt hlutfall útflutningstekna. Því vil ég segja við ykkur, kæru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands:
Fjárfestið í Austurlandi fyrir sanngjarna prósentu árlega, prósentu sem er í samræmi við gríðarlega verðmætasköpun svæðisins.
Hringtengingu Austurlands verður að koma af stað með Fjarðarheiðargöngum, Seyðisfjarðargöngum og Mjóafjarðargöngum. Það er skýr vilji Austfirðinga að ráðast í þessar framkvæmdir og þær eru í samræmi við nýsamþykkt Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 og þá samgönguáætlun sem enn er í gildi.
Orkuskiptin eru framundan. Ég hvet ykkur til að hlusta á ákall sveitarfélaga um aukna hlutdeild af tekjum virkjana til uppbyggingar í nærsamfélaginu. Sú lausn er viðhöfð í Noregi og hún er sanngjörn. Hún mun koma grænni orkuframleiðslu á skrið hér á landi og hjálpa Íslandi að standast markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.
Komið uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar í gang samkvæmt fyrstu flugstefnu Íslands.
Og síðast en ekki síst:
Tryggja verður öflugri rödd þessa landshluta á Alþingi. Það getum við gert með því t.d. að minnka kjördæmið aftur og þannig verður þingmönnum okkar gerlegt að ná góðu tali af kjósendum sínum og endurspegla óskir þeirra og áherslur á Alþingi Íslendinga.
Kæra ríkisstjórn, fyrir hönd sveitarstjórnarmanna á Austurlandi vil ég þakka ykkur áheyrnina. Okkur er það mjög mikilvægt að fá þetta tækifæri til að koma fram með þau mál sem brenna á okkur, íbúum á Austurlands.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn