Austurbrú er þátttakandi í þremur Horizon 2020 verkefnum, en þau verkefni eru styrkt af Evrópusambandinu og að þeim koma hverju sinni fjölmargir aðilar; háskólar, sjálfstæðir fræðimenn, opinberar stofnanir og einkafyrirtæki.
Eitt þessara verkefna kallast The MEDiate – Multi-hazard and risk informed system for Enhanced local and regional Disaster risk management og var ársfundur verkefnisins haldinn í Delft í Hollandi þessu sinni dagana 24.-25. október. Verkefnið hófst í október 2022 og stendur út september 2025. Arnar Úlfarsson verkefnastjóri í rannsókna- og greiningarteymi Austurbrúar sótti fundinn fyrir okkar hönd. Á þessum fundum er tækifæri fyrir alla 14 samstarfsaðila til að hittast í eigin persónu og ræða stöðu verkefnis en farið er yfir alla þætti þess og unnið í hópum að þeim lausnum sem verkefninu er ætlað að skila. Samstarfsaðilar okkar á Íslandi frá Háskóla Íslands og Veðurstofunni sátu einnig fundinn.
Sveitastjórn Múlaþings er mikilvægur ákvörðunaraðili þegar kemur að krísum í samfélaginu, þar á meðal náttúruvá. Slík vá er hluti af veruleika margra íbúa á Austurlandi, þar sem snjóflóð og skriðuföll eru algeng, og hættan á slíkum hamförum er raunveruleg. Þess vegna þurfa yfirvöld og íbúar að þekkja sitt nánasta umhverfi og vita hvernig bregðast skal við þegar krísa er yfirvofandi eða hamfarir eiga sér stað.
Í Múlaþingi eru fjögur þéttbýlissvæði, og eitt þeirra er Seyðisfjörður. Á Seyðisfirði hefur löng saga snjóflóða og skriðufalla leitt til þess að byggðin hefur færst innar í fjörðinn. Núverandi byggð er staðsett innst í firðinum, að mestu leyti sunnan megin þar sem bæði skriðu- og snjóflóðahætta er til staðar. Auk þess nær byggðin undir fjallið norðan megin, þar sem mikil snjóflóðahætta er en þar hefur verið varið með umfangsmiklum snjóflóðavörnum. Í hlíðunum ofan byggðar, hefur Veðurstofa Íslands komið upp víðtæku eftirlitskerfi með hreyfingu jarðvegsins. Veðurstofan fylgist með veðurspám og úrkomumælingum og hefur samráð við eftirlitsaðila á stöðum þar sem mest hætta er á snjóflóðum. Mælakerfið var að mestu leyti sett upp eftir árið 2020 þegar stór skriða féll á bæinn. Hættan á skriðu var þekkt en talin ólíkleg. Hins vegar áttu sér stað hamfarir 18. desember 2020, eftir tíu daga rigningu, í mánuði þar sem venjulega má búast við snjókomu.
Skriðan olli gríðarlegum skaða; tíu hús hrundu, og öllum íbúum var skipað að yfirgefa bæinn. Endurmat á skriðuhættu sem fram fór eftir þetta sýndi að helsta atvinnusvæði bæjarins, stjórnsýsluhús bæjarins og aðstaða björgunarsveitarinnar voru á mesta hættusvæðinu. Á þeim tíma hafði Seyðisfjörður nýlega sameinast Múlaþingi, úr sjálfstæðu sveitarfélagi með sjö hundruð íbúum í sveitarfélag með um 5000 íbúa. Aðalstöðvar stjórnsýslu Múlaþings eru á Egilsstöðum, um 25 km í burtu og yfir einn af hæstu fjallvegum Íslands.
Slíkar áskoranir sem Seyðisfjörður stendur frammi fyrir kalla á góðar viðbragðsáætlanir og mat á áhættum og víxlverkandi áhrifum. Hlutverk sveitarfélagsins er víðtækt. Í samstarfi við Veðurstofu Íslands (VÍ), almannavarnarnefnd og lögreglu þarf sveitarfélagið að taka mikilvægar ákvarðanir til að tryggja öryggi íbúa ásamt því að vernda mannvirki og innviði. Einnig þurfa allar ákvarðanir á sveitarstjórnarstigi að taka tillit til áhættu á hættulegum atburðum, svo sem fyrir skipulag þéttbýlis, byggingu innviða, samgöngur og nauðsynlega þjónustu.
Sveitarfélagið tekur þátt í Horizon 2020 verkefninu MEDiate í gegnum Austurbrú til að styrkja ákvörðunartöku um náttúruvá. Verkefnið fékk 3.549.969 evrur og inniheldur fjórtán samstarfsaðila og fjögur prófunarsvæði: Seyðisfjörð, Essex, Osló og Nice. Háskóli Íslands (HÍ) þróar kerfislíkan til að hjálpa sveitarfélögum að meta áhættustjórnunaráætlanir og ákvarðanatökuferli þegar hamfarir eiga sér stað eða eru yfirvofandi. Veðurstofan rannsakar tengda náttúruvá og vinnur með hagaðilum í Múlaþingi til að skilja víxlverkandi áhrif og auðkenna þá þætti sem auka eða draga úr þessari vá. Skriðuföllin árið 2020 eru notuð sem lærdómur þar sem atburðir skriðufallanna í desember 2020 og rýming Seyðisfjarðar eru endurskapaðir og skoðaðir. Samstarfsaðilar í MEDiate (AUS, VÍ,HÍ) hafa fundað með fulltrúum Múlaþings, og hafa vinnustofur miðast að því að skilja þarfir endanotenda. Áherslan hefur verið á að skilja allt ferlið, tegundir korta og gagna sem hagaðilar höfðu nú þegar, hvaða önnur gögn og kort gætu verið gagnleg, og skjalfesta hlutverk og aðgerðir hvers lykilhagaðila. Tímafrekast var að búa til tímalínu atburða tengda skriðuföllum og rýmingum síðustu 8-10 ára. Hins vegar er reynslan af því að fást við þessa atburði mjög verðmæt við að byggja líkan sem styður ákvarðanatökuferlið.
MEDiate verkefnið mun þróa veflægt ákvörðunarstuðningskerfi (DSS) fyrir hamfarastjórnun. DSS verður sérsniðið til að endurspegla staðbundnar aðstæður og þarfir (t.d. lýðfræði, skort, náttúruauðlindir o.s.frv.), sem gerir notendum (svo sem sveitarstjórnum, fyrirtækjum) kleift að byggja upp nákvæmar sviðsmyndir til að líkja eftir áhrifum þeirra á áhættustjórnun með sögu- og veðurfarsforspám. Með notkun DSS geta aðilar á sveitarstjórnarstigi, almannavörnum og fyrstu viðbragðsaðilar gert áreiðanlegra mat á viðnámsþrótti samfélagsins, þannig að tjón (mannlegt, fjárhagslegt, umhverfislegt o.fl.) vegna hamfara verði minna. Verkefninu lýkur í september 2025. Þá ætti tilbúið tól að styðja við ákvarðanatöku stjórnvalda og aðstoða við mat á raunverulegri áhættu og afleiðingum. Þannig verða ákvarðanir um rýmingar eða aðgerðir markvissari, og íbúar njóta aukins öryggis.
Upplýsingasetur: Aurskriður í Seyðisfirði
Hættumat vegna ofanflóða á Seyðisfirði
Verkefni: Uppbygging á Seyðisfirði
Myndir frá Seyðisfirði: Gunnar Gunnarsson, Austurfrétt
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn