Erla Dögg Grétarsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri ferðamála hjá Austurbrú. Hlutverk hennar felst í að efla markaðsstarf og ferðamennsku fyrir áfangastaðinn Austurland, byggja upp öflugt tengslanet og stuðla að góðu samstarfi milli sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana. Hún hefur starfsaðstöðu á Egilsstöðum og hefur störf 1. desember.
Erla Dögg er með BS-gráðu í ferðamálafræði og mun ljúka meistaragráðu í forystu og stjórnun nú í desember. Síðustu ár starfaði hún hjá VÍS við einstaklingsráðgjöf og tók þátt í ýmsum verkefnum, meðal annars við þróun nýrrar vöru á íslenskum markaði. Áður starfaði hún hjá Kexlandi, þar sem hún kom að uppbyggingu ferðamála, viðburða og markaðsefnis ásamt ýmsum öðrum fjölbreyttum verkefnum.
„Það sem dró mig að starfinu hjá Austurbrú eru öll þau spennandi tækifæri sem felast í því að taka þátt í uppbyggingu á Austurlandi, bæði hvað snertir búsetu og ferðamennsku,“ segir Erla Dögg. „Mér finnst sérstaklega gefandi að vinna að skapandi og fjölbreyttum verkefnum, kynnast nýju fólki, takast á við nýjar áskoranir og læra eitthvað nýtt á hverjum degi.“
Erla Dögg er uppalin á Egilsstöðum og flutti aftur heim að sunnan fyrir nokkrum árum. „Hér fyrir austan líður mér best og hér vil ég vera,“ segir hún.
Erlu Dögg hlakkar til að koma með ferska sýn og nýjar hugmyndir inn í starfið. „Ég sé tækifæri til að efla markaðsstarfið enn frekar með því að nýta skapandi nálgun, segja sögur svæðisins á nýjan hátt og styrkja ímynd Austurlands sem aðlaðandi áfangastaðar fyrir ferðamenn og íbúa.“
Áhugamál Erlu Daggar snúast fyrst og fremst um fjölskyldu og vini. Hún nýtur þess að ferðast, kynnast nýjum stöðum, elda góðan mat og fara í útivist eða skyndiævintýri. „Ég er alltaf til í ævintýri og fjör, en kann líka vel að meta það að hafa það notalegt og slaka á,“ segir hún.
Austurbrú býður Erlu Dögg hjartanlega velkomna til starfa!
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn