Samheldni íbúa á Seyðisfirði í kjölfar aurskriðanna í desember 2020 mælist yfir meðallagi og seigla íbúa birtist í bjartsýni og baráttuhug fyrir bænum. Afleiðingar skriðufallanna eru hins vegar áfallastreita hjá hluta íbúa, veðurótti og áhyggjur af frekari náttúruhamförum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn Austurbrúar á félagslegri seiglu á Seyðisfirði í kjölfar hamfaranna.
Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á samfélagsbreytingum í bæjum sem verða fyrir náttúruhamförum eins og t.d. snjóflóðum, aurskriðum og jarðskjálftum. Má þar nefna rannsóknir sem gerðar voru eftir flóðin fyrir vestan á tíunda áratugnum en eftir því sem næst verður komist er þetta fyrsta rannsókn sinnar tegundar á aðstæðum sem hafa skapast eftir náttúruhamfarir á Austurlandi.
Austurbrú ákvað að ráðast í gerð rannsóknarinnar fljótlega eftir að aurskriðurnar féllu á Seyðisfirði. Á fyrri hluta ársins 2021 vann stofnunin að ýmsum greiningarverkefnum með sveitarfélaginu Múlaþingi sem einkum beindust að áhrifum hamfaranna á atvinnulífið og var rannsókn á félagslegri seiglu hluti af þessari vinnu. Styrkur fékkst til verkefnisins úr Byggðarannsóknasjóði.
Tilgangur rannsóknarinnar var að s.s. að greina og kortleggja afleiðingar náttúruhamfaranna með tilliti til „samfélagslegrar seiglu“. Í kjölfar atburða af þessu tagi verða oft breytingar á þeim samfélögum sem fyrir þeim verða. Þetta hefur reynslan sýnt bæði hér og erlendis en með hugtakinu „seigla“ er átt við getu íbúa til að aðlaga sig breyttum aðstæðum, jafna sig á missi eða skaða í kjölfar náttúruhamfara. Sé seigla mikil í samfélagi dregur það úr líkum á langtímaskaða t.d. mikilli fólksfækkun.
Samfélagslegar afleiðingar náttúruhamfara eru margslungnar. Í rannsókninni var reynt að kortleggja þá atburðarás sem átti sér stað í beinu framhaldi af þeim, áhrif þeirra á íbúa voru metin m.t.t. heilsufars og lífsgæða og skoðaðir þeir þættir sem skipta máli þegar samfélag aðlagast nýjum veruleika eftir áfall og hvernig seiglan birtist svo í kjölfarið. Þátttakendur rannsóknarinnar sögðu samfélagið á Seyðisfirði einkennast af fjölbreyttni og samheldni en niðurstöður matslista gáfu til kynna að samfélagsvitund væri yfir meðallagi á Seyðisfirði. Þessi einkenni birtast meðal annars í samstöðu íbúa, opnun samfélagsmiðstöðvar, ýmis konar stuðningi og hreinsunarstarfi. Þá upplifðu Seyðfirðingar mikla samkennd og samhug frá utanaðkomandi aðilum og þeir viðbragðsaðilar sem rætt var við lýstu yfirvegun og samhug hjá íbúum.
Ljóst er að áhrifin af aurskriðunum eru gríðarleg fyrir íbúa og samfélag á Seyðisfirði og þær breyttu sýn íbúa á fjöllin og umhverfið. Spurt var um heilsufar og áfallaeinkenni auk mats á upplýsingagjöf og viðbrögðum þegar skriðurnar féllu. Í kjölfar hamfaranna nefndu allir viðmælendur veðurótta eða óþægindi tengd veðri, sér í lagi rigningu, sem ýfði upp áfallið. Mörgum þótti mjög eða frekar líklegt að aurskriður og ofsaveður yrðu á Seyðisfirði á næstu árum. Í viðtölunum töluðu íbúar gjarnan um að þeir biðu eftir því „að restin kæmi niður úr fjallinu“ og um breyttan veruleika á Seyðisfirði vegna loftslagsbreytinga sem hefði áhrif á veður og náttúru.
Það var einnig spurt um atriði sem sneru að áfallastreitu og í ljós kom að tæplega helmingur (46% þátttakenda) telst með streitu yfir meðallagi sem gæti talist til skaðlegrar streitu. Þá treysta ekki allir íbúar sér inn á ákveðin svæði í bænum í kjölfar skriðanna. Spurt var sérstaklega um eignatjón í spurningalistanum en af þeim sem svöruðu sögðu um 7% heimili sitt hafa orðið fyrir tjóni en 22% að fasteign í þeirra eigu eða notkun hafi orðið fyrir tjóni. Þegar spurt var um úrlausn vegna tjóna töldu um 21% sig ekki hafa fengið úrlausn sinna mála.
Svo virðist vera sem lítið hafi verið um brottflutning fram að þessu þótt ekki sé útilokað að það kunni að breytast til lengri tíma litið.
Seigla íbúa birtist m.a. í mikilli bjartsýni og baráttuhug. Seyðfirðingar sýndu frá upphafi metnað og vilja til uppbyggingar sem hefur m.a. sést í töluverðum fjölda umsókna í Hvatasjóð Seyðisfjarðar sem settur var á laggirnar í byrjun árs 2021 og er í umsjón Austurbrúar. Flestir eru ánægðir með þann stuðning sem veittur hefur verið þótt margir hafi haft nokkuð út á viðbúnað og fyrstu viðbrögð að setja. Fólk óttast helst að stuðningurinn sé ekki til langframa þar sem langan tíma tekur að byggja upp samfélög eftir áföll af þessari stærðargráðu.
Bið eftir hættumati hefur reynst mörgum íbúum erfið en hættumatið er undirstaða nauðsynlegra framkvæmda til að skapa aukinn stöðugleika og jafnvægi í samfélaginu. Skiptar skoðanir voru á rýmingum, sumir sögðust ekki hafa viljað rýma áður en stóra skriðan féll (þann 18. desember) en allir hafi séð eftir á að það var heppni að ekki fór verr og ekki nægilega rýmt þegar upp var staðið.
Í viðtölunum kom fram almenn ánægja með hreinsunarstörf og uppgræðslu. Fólki þótti vel að því staðið og var ánægt með hve hratt var hafist handa við hreinsun og uppgræðslu. Margir nefndu að miklu máli skipti fyrir íbúa að hafa ekki „opið sár“ í fjallinu. Hreinsun og uppgræðsla hefði þannig haft jákvæð sálræn áhrif á íbúa.
Meginnniðurstaða skýrsluhöfunda er sú að loftslagsbreytingar geri það að verkum að skoða þarf náttúruhamfarir og hamfaraaðstæður á Seyðisfirði og víðar gaumgæfilega. Breyttar aðstæður vegna veðurs geti breytt þeim forsendum sem hætta hefur verið metin út frá.
Mikilvægt er að fylgjast grannt með þróun mála á Seyðisfirði þar sem litið er til þarfa íbúa og hvernig þeim er mætt, áfallastreitu, samheldni og ekki síst heilsu og líðan þeirra. Jafnframt sé mikilvægt að mæla brottflutning og aðra lýðfræðilega eiginleika samfélagsins með reglulegu millibili til að meta langtímaáhrif hamfaranna.
Að lokum segja skýrsluhöfundar að draga þurfi lærdóm af hamförunum svo hægt sé að þróa og aðlaga viðbrögð nærsamfélagsins, t.a.m. sveitarstjórnar og ríkisvalds. Slíkur lærdómur muni nýtast á öllum þeim stöðum á landinu þar sem hætta á slíkum hamförum er fyrir hendi.
Rannsóknin var byggð á viðtölum við íbúa og viðbragðsaðila. Sendir voru spurningalistar á alla íbúa og rýnt í fyrirliggjandi gögn um lýðfræði og önnur einkenni samfélagsins á Seyðisfirði. Auk viðbragðsaðila tók um ríflega fjórðungur íbúa yfir 18 ára þátt í rannsókninni. Austurbrú þakkar þátttakandum kærlega fyrir. Það var var ómetanlegt fyrir rannsakendur að kynnast viðhorfum fólks sem upplifði þessar hamfarir á eigin skinni.
Hér má finna heildarniðurstöður rannsóknarinnar og samantekt á þeim.
Skoða skýrsluFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn