Fjórtánda Umhverfisþing fór fram í Hörpu dagana 15.–16. september þar sem meginþemun voru hafið, líffræðileg fjölbreytni og loftslagsmál. Markmið þingsins var að efla samtal stjórnvalda, sérfræðinga, félagasamtaka og almennings um þessar mikilvægu áskoranir og skapa grundvöll fyrir áframhaldandi stefnumótun í málaflokknum.
Fulltrúi Austurbrúar, Sara Elísabet Svansdóttir, tók þátt í þinginu og sat m.a. vinnustofur um starf og sýn Loftslagsaktivista Íslands og um drög að nýrri loftslagsstefnu Íslands. Þá var einnig boðið upp á vinnustofu um líffræðilega fjölbreytni sem naut mikillar athygli.
Í setningarræðu sinnar minnti Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á sérstöðu Íslands í náttúruvernd og að 40% af öllum ósnortnum víðernum Evrópu séu hér á landi. Hann lagði áherslu á að náttúruvernd mætti ekki snúast um að „haka í box“, heldur um raunverulega vernd vistkerfa bæði á landi og í hafi.
„Það er mikilvægt fyrir okkur hjá Austurbrú að styrkja tengslanetið og hitta kollega sem eru að vinna að svipuðum verkefnum. Þingið var vel skipulagt og þátttakan í hópavinnu gaf okkur dýrmæt tækifæri til að spegla hugmyndir og fá nýjar,“ segir Sara. „Við á Austurlandi getum lagt okkar af mörkum til að loftslagsmarkmiðum Íslands verði náð og erum nú með fullt af hugmyndum til að útfæra það fyrir Austurland.“
Einn af hápunktum þingsins var sýning á 20 mínútna útgáfu af nýjustu heimildarmynd Davids Attenborough um hafið, sem setti sterkan tón fyrir umræðurnar um mikilvægi verndar hafsins og auðlinda þess.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn