Áfangastaðurinn Austurland tók nýverið þátt í ferðakaupstefnunni Vestnorden, sem haldin var á Akureyri dagana 30. september – 1. október. Vestnorden er ein mikilvægasta ferðakaupstefna Norðurlanda, þar sem ferðaþjónustuaðilar frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum koma saman og kynna svæðin sín fyrir erlendum kaupendum.
Vestnorden hefur verið haldin árlega frá árinu 1986 og markmið hennar er að efla tengsl og viðskipti milli ferðaþjónustuaðila á Norður-Atlantshafssvæðinu og erlendra ferðaskrifstofa. Alexandra Tómasdóttir og Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir stóðu vaktina fyrir Áfangastaðinn Austurland. „Við sátum yfir 40 fundi með spennandi ferðaskrifstofum sem komu víðsvegar að. Það gekk gríðarlega vel og áberandi var breyting í hljóði fólks varðandi áhuga, dvalarlengd og ferðir á axlartímabil og vetrarmánuði. Það er eitthvað í loftinu og verður spennandi að fylgja þessu eftir,“ segir Alexandra.
Auk Áfangastaðarins tóku einnig þátt fulltrúar frá nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum á Austurlandi
• Vök Baths
• Hótel Breiðdalsvík
• Tanni Travel
• Álfheimar á Borgarfirði eystri
• Hildibrand Hotel
Þessi fyrirtæki áttu fundi með fjölda erlendra aðila og kynntu vöruframboð sitt og svæðið í heild, með það að markmiði að laða fleiri gesti til Austurlands á komandi árum.
„Þátttaka í Vestnorden skiptir miklu máli fyrir minni svæði á borð við Austurland, þar sem slík tækifæri til markaðssetningar og tengslamyndunar við alþjóðlega samstarfsaðila eru afar verðmætar. Samstarf og samstaða svæðisins í slíkum verkefnum styrkir einnig heildarímynd Austurlands sem vaxandi áfangastaðar í íslenskri ferðaþjónustu,“ segir Alexandra.
Fjórtán starfsmenn tólf erlendra ferðaskrifstofa flugu austur til Egilsstaða í þeim tilgangi að kynnast landshlutanum betur og uppgötva nýja og spennandi áfangastaði fyrir viðskiptavini sína. Tanni Travel sá um akstur og leiðsögn og fjöldi fyrirtækja og áfangastaða í landshlutanum heimsótt.
Ferðin var unnin í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands og tók tvo daga. Fyrri deginum var að öllu leyti varið á Austurlandi þar sem Hreindýragarðurinn og Skriðuklaustur voru heimsótt áður en haldið var inn á hálendi í átt að Snæfelli um Sanddal. Deginum var svo lokað með slökun í Vök Baths eftir góðan kvöldverð og samveru á Hótel Héraði.
Á degi tvö lá leiðin norður á Akureyri. Eftir morgunmat var haldið í Stuðlagil þar sem nýju útsýnispallarnir við Grund voru skoðaðir ásamt snemmbúnum hádegisverði á HAK Bistró. Þar með lauk landkynningu Austurlands í þessari ferð og tóku starfsmenn Markaðsstofu Norðurlands og Norðurstrandarleiðarinnar við keflinu.
„Þau voru öll mjög ánægð með þessa ferð,“ segir Sigfinnur Björnsson hjá Tanna Travel, „enda ekkert þeirra farið inn á hálendið fyrir austan. Sum vissu hreinlega ekki að það væri hægt að komast þangað og hvað þá svo auðveldlega. Ég held að okkur hafi tekist mjög vel til að kynna hið óþekkta í landshlutanum í bland við vinsæla áfangastaði á borð við Stuðlagil og Hengifoss. Við hefðum auðvitað viljað hafa þau hér hjá okkur í 2-3 nætur í viðbót til þess að sýna þeim sem mest en það kemur bara næst.”
Alexandra Tómasdóttir
Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn