Um verkefnið
Upphaf verkefnisins markaðist af íbúaþingi sem haldið var á Borgarfirði 10. og 11. febrúar 2018 í félagsheimilinu Fjarðarborg þar sem Byggðastofnun, í samstarfi við Borgarfjarðarhrepp, Austurbrú ses. og Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), bauð íbúum til skrafs og ráðagerða.Verkefnisstjórn vann stöðugreiningu fyrir byggðarlagið. Meginmarkmið verkefnisins voru fjögur; gott mannlíf, fjölbreytt atvinnulíf, öflugir innviðir og einstakt umhverfi, en undirmarkmiðin voru 46 talsins og tóku á fjölbreyttum þáttum – allt frá eflingu félagslífs og til heilbrigðis- og samgöngumála.
Verkefninu Betri Borgarfjörður lauk formlega með íbúafundi 16. febrúar 2022.
Styrkir
Úthlutunarfé sjóðsins hvert ár var sjö milljónir króna en árið 2020 kom einnig auka fjárveiting inn í frumkvæðissjóði Brothættra byggða á landsvísu sem mótvægisaðgerð vegna COVID-19, sextíu milljónir. Auk þess var settur saman Öndvegissjóður Brothættra byggða með fjörtíu milljónum króna þar sem valin verkefni úr öllum brothættum byggðalögum gátu sótt um fjármagn.
Alls hlutu 60 verkefni styrk úr sjóðnum frá upphafi upp á samtals 35.750.000 kr. Frekari upplýsingar um verkefnin og styrkina má finna í lokaskýrslu verkefnisins neðst á þessari síðu.
Framtíðarsýn 2023
Íbúum á Borgarfirði eystra hefur fjölgað enda samfélagið þekkt fyrir samheldni þeirra sem þar búa og að taka vel á móti nýju fólki. Börnum hefur fjölgað í leik- og grunnskóla samhliða því að atvinnutækifærum hefur fjölgað. Framboð á þjónustu við íbúa hefur þar af leiðandi aukist, til dæmis í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Sjávarútvegur, ásamt landbúnaði eru sem fyrr grunnatvinnugreinar svæðisins, ferðaþjónusta er orðin heils árs atvinnuvegur og nokkur árangur hefur náðst í að laða að störf óháð staðsetningu. Borgarfjörður eystri tekur vel á móti ferðamönnum og er þekktur hérlendis og erlendis sem náttúru- og útivistarparadís og fyrir kraftmikið menningarlíf. Fjörðurinn er aðgengilegur jafnt sumar sem vetur þrátt fyrir að vera úr alfaraleið.